Vegir með blæðingar
Undanfarna daga hefur slæmt ástand á svokölluðu bundnu slitlagi á vegum í Húnavatnssýslu verið talsvert í fréttum. Slitlaginu blæðir eins og það er nefnt, tjaran í olíumölinni skilur sig frá mölinni sem henni var blandað saman við, hún festist við dekk bílanna og kastast svo af hjólunum inn í brettin og út undan bílunum til allra átta.
Ævar Friðriksson tæknilegur ráðgjafi FÍB átti leið um Norðurlandsveg um sl. helgi. Hann segir við fréttavef FÍB að olíumölinni hefði „blætt“ meira og minna á öllum kaflanum milli Blönduóss og Staðarskála og sumsstaðar hefðu verið stórir kögglar á veginum. Hann ók á eftir rútu um tíma og sagði að tjara og möl hefðu hlaðist svo utan á afturhjól rútunnar að rútan hefði verið í akstri ekki ósvipað því sem sprungið væri á öllum afturdekkjum.
Þessi mynd var tekin fyrir sjö árum í Húnavatnssýslu. |
Nokkurri furðu gegnir hversu ráðleysi Vegagerðarinnar virðist algjört gagnvart þessum blæðingavanda. Svæðisstjóri vestursvæðis hjá Vegagerðinni sagði við fréttavefinn mbl.is í gær að þetta sé þekkt fyrirbrigði og hið versta mál fyrir umferðina. „Við höfum ekki fundið ráð við þessu… Við höfum aldrei komist að því hvers vegna þetta gerist… Þetta er svo sérkennilegt að þetta er nánast dularfullt fyrirbrigði,“ sagði svæðisstjórinn við mbl.is
Þetta blæðingavandamál er alls ekki neitt nýtt. Fréttavef FÍB bárust myndir af fyrirbærinu snemma sumars árið 2006 og um svipað leyti tóku að berast inn á borð FÍB kvartanir frá félagsmönnum vegna þeirra og vegna skemmda sem orðið höfðu á bifreiðum undan tjöru- og grjótkasti. Í þau skipti sem haft var samband við Vegagerðina vegna þessara mála þá, hafnaði hún allri ábyrgð á bifreiðaskemmdum og talaði um einangruð tilvik. Svo virðist sem Vegagerðin sé að linast í þeirri afstöðu sinni því að í frétt á heimasíðu hennar í dag, 22. janúar stendur m.a: „Vegfarendur sem lenda í tjóni, skemmdum á bílnum, vegna þessara blæðinga þurfa að hafa samband við Sjóvá og fylla út tjónsskýrslu og í framhaldi af því verður tekin afstaða til bótaskyldu.“
En miðað við hvað þessi blæðingavandamál hafa staðið lengi vekur það óneitanlega furðu að nú 7-8 árum eftir að verulega tók að bera á vandanum standi Vegagerðin með alla sína þekkingu og sérfræðikunnáttu og aðgang að henni utan stofnunarinnar, gersamlega á gati. Það getur ekki talist boðlegt að millistjórnandi hjá Vegagerðinni segi: „Þetta er svo sérkennilegt að þetta er nánast dularfullt fyrirbrigði.“
Enn svo virðist sem Vegagerðin sé enn ekki tilbúin til þess að fara af alvöru í það að greina orsakir vandans og leysa hann síðan því að í umræddri frétt á heimasíðu stofnunarinnar segir þetta:
„Ekki er ljóst hvað veldur þessum blæðingum. Líklegt má þó telja að þessu valdi samspil þess að undanfarið hefur skipst á þíða og frost samhliða því að mikið hefur verið saltað og sandað. Nagladekk gætu einnig haft með þetta samspil að gera.
Allt þetta þarfnast skoðunar og rannsóknar. Atvik sem þessi eru ekki algeng en erfitt að bregðast við, ólíklegt er talið að það dugi að sanda þessi blæðingasvæði þótt það virki ágætlega á blæðingar að sumri til. En þær eru allt annars eðlis.“
Um þetta má ýmislegt segja en benda má á að það er ekkert nýtt að á Íslandi skiptist á frost og þíða í veðurfari. Og fyrst .. „allt þetta…“ þarfnist skoðunar og rannsóknar,“ þá liggur í þessum orðum að skoðun og rannsókn hafi ekki enn farið fram. Ef svo er; hvernig er þá hægt að fullyrða að „vetrarblæðingarnar“ nú séu allt annars eðlis en sumarblæðingar?
Ef skemmdir hafa orðið á bílum vegna tjöru- og grjótkasts vill FÍB að lokum hvetja eigendur þeirra til að fylla út tjónaskýrslur um það og skila til Sjóvár, tryggingafélags Vegagerðarinnar. Og ef bílar óhreinkast vegna tjöruburðar er eigendum þeirra ráðlagt að snúa sér til næstu starfsstöðvar Vegagerðarinnar og óska eftir beiðni fyrir þrifum á bílunum.