Vegtollur er notendagjald
Í þættinum Frá degi til dags á bls. 20 í Fréttablaðinu í dag er fjallað um þann málskilning Kristjáns Möller alþingismanns og baráttumanns fyrir hlutafélaga- og vegatollavæðingu þjóðvega út frá höðborgarsvæðinu að ekki beri að kalla vegatollana vegatolla heldur notendagjöld. Síðan segir í greininni í Fréttablaðinu:
„Gott og vel, við skulum glugga í orðabókina. Ein skilgreining orðsins tollur er á þessa leið: „afgjald, leiga (fyrir afnot)“. Tollur er sem sagt afgjald fyrir afnot, eða notendagjald. Þetta vissu raunar allir nema Kristján. En hann veit það þá núna.
Gjald fyrir notkun vegar
Ef við flettum upp orðinu vegatollur í Íslenskri orðabók verður þetta enn skýrara. Þar er vegatollur skilgreindur sem „gjald sem er innheimt af vegfarendum (bifreiðastjórum) fyrir notkun vegar.“ Ef þessi skrif fara framhjá Kristjáni ætti kollegi hans í þingflokki Samfylkingarinnar og ritstjóri orðabókarinnar, Mörður Árnason, að geta frætt hann um málið.“