Vegurinn inn í Mjóafjörð hefur verið opnaður
Vegurinn inn í Mjóafjörð hefur verið opnaður. Aðeins tók tvo daga að ryðja í gegnum skaflana sem á köflum voru tveir og hálfur metri á hæð. Í fyrra tók verkið fjóra daga og stálið víða fimm metra þykkt.
Heiðin lokaði í byrjun desember og skömmu fyrir helgina var hún opnuð á nýjan leik. Í Mjóafirði búa rúmlega tíu manns yfir vetrartímann. Í Brekkuþorpi er allt til alls, kirkja, skóli, ferðamannaverslun, póstafgreiðsla, kaffistofa og þaðan er rekin útgerð og fiskeldi. Yfir vetrartímann er eina leiðin til og frá þorpinu sjóleiðis en Flóabáturinn Björgvin siglir milli Brekkuþorps og Neskaupstaðar tvisvar í viku.
Að sögn Ari B. Guðmundssonar yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Reyðarfirði. Var mun minni snjór á leiðinni í ár heldur en í fyrra og tók verkið aðeins tvo daga miðað við fjóra í fyrra. Á snjóþyngstu köflunum nær stálið um tveggja og hálfs metra hæð, en í fyrra voru það rúmir fimm metra.
Ari er ánægður að geta opnað veginn inn í Mjóafjörð þetta snemma en hann var ekki opnaður fyrr en upp úr miðjum maí á síðasta ári. Þá hafði hann verið lokaður síðan í október, fyrir utan þegar mokað var í gegn í desember fyrir Neyðarlínuna.
Leiðin er fær fjórhjóladrifnum bílum til að byrja með en sólin er þó fljót að éta sundur klakann sem liggur á veginum. Unnið er að því að breikka snjógöngin sem fyrst um sinn eru einbreið með útskotum.