Vel gengur með mislæg vegamót á Reykjanesbraut
Líkt og vegfarendur um Reykjanesbraut um Hafnarfjörð hafa tekið eftir þá hefur verið unnið af kappi við mislæg vegamót brautarinnar og Krýsuvíkurvegar þessi dægrin. Vel gengur og framkvæmdin á áætlun en að mestu er lokið 1. áfanga sem felst í því að færa heilan lagnaskóg svo mögulegt verði að byggja brúna fyrir hin mislægu vegamót annars vegar og hinsvegar að opna framhjáhlaup svo vinna megi við nefnda brú.
Svo sem sjá má þá teygja lagnirnar sem þarf að færa sig víða og í ansi langa fjarlægð frá sjálfum vegamótunum. En þannig er gjarnan þegar unnið er að stórum verkum á höfuðborgarsvæðinu sem auðvitað hleypur upp bæði kostnaði og þeim tíma sem verkið tekur.
Eigi að síður er verktími í þessu verki mjög stuttur til þess að lágmarka ónæðið og tafir vegfarenda á þessari fjölförnu leið. Verklok verða í haust. Vegfarendur eru beðnir um að aka varlega, virða hraðamerkingar og sýna aukna aðgát á vinnusvæðinu.
Áfangi 2
Nú tekur þá við næsti áfangi. Í þessum áfanga er meginhluti vega- og gatnagerðar og bygging vegamótabrúarinnar.
Annar áfangi hefst með því að Reykjanesbrautin er tekin í sundur og grafið er fyrir nýrri brú. Unnið er að brúarbyggingu í beinu framhaldi. Unnið er að veg- og gatnagerð; Suðurbrautartengingu, Selhellutengingu, SA-, NA-, NV-römpum ásamt að- og fráreinum, hringtorgi að norðan og hluta af hringtorgi að sunnan ásamt hluta af VS-rampa og Krýsuvíkurvegi eins langt og hagkvæmt er.
Unnið er að öllum skeringum, fyllingum og styrktar- og burðarlögum undir rampa og götur. Síðan malbikun, frárennsliskerfi og veglýsingu, kantsteinum og merkingum og frágangi umferðareyja og öllu því sem til þarf til að ljúka þeim verkhluta.
Unnið er að gerð hljóðmana við Reykjanesbraut og á Helluhrauni samhliða skeringum á vegamótasvæðinu. Unnið er að hraðatakmarkandi aðgerðum á Suðurbraut. Þeim hluta skal vera að fullu lokið áður en skólahald hefst í Hvaleyrarskóla um 20. ágúst 2017.
Í lok þessa áfanga er Reykjanesbrautin endurgerð yfir nýja brú með öllum frágangi svo sem lýsingu, vegriði og vegmerkingum og umferð færð af framhjáhlaupinu á brautina.
Við endurgerð Reykjanesbrautar yfir brúna er þverhalla Reykjanesbrautar á kafla breytt í 3,5% með því að fræsa núverandi akbrautir með breyttum halla og malbika yfir. Reikna má með því að endurgera þurfi aðra öxl vegarins í þeirri vinnu.
Vinnu við áfanga 2 skal að fullu lokið 1. október 2017.