Vélarbilanir vegna skorts á viðhaldi?
Sænska tryggingafélagið Länsförsäkringar hefur gefið út skýrslu um vélabilanir í bílum í Svíþjóð. Samkvæmt henni eru vélabilanir hlutfallslega algengastar í Audi A4 og A6 í samanburði við aðrar tegundir bíla í vandaðri kantinum. Jafnframt er erfiðast að sækja bætur eða þátttöku í viðgerðakostnaði til framleiðanda Audi bíla og umboðs- og þjónustuaðila þeirra þegar t.d. tímakeðjur slitna, oft með þeim afleiðingum að ventlar, hedd og stimplar skemmast alvarlega.
Sænskir fjölmiðlar hafa spurt upplýsingafulltrúa Audi í Svíþjóð hverju þetta sæti og hann (hún) svarar því til að ástæður bilananna séu venjulega þær að eigendur bílanna hafi hirt illa um þá og vanrækt að halda þeim við. Oftast sé um að ræða gamla bíla og að eigendur þeirra hafi lítt hirt um að skipa um olíu og sinna eðlilegu viðhaldi bílanna samkvæmt fyrirmælum framleiðanda í handbók bílsins.
Jonas Borglund blaðamaður á Teknikens värld er ekki sammála upplýsingafulltrúanum. Hann segir villandi upplýsingum og viðhaldsfyrirmælum framleiðandans sé um að kenna og þeim trúi bíleigendurnir auðvitað. Í handbókum bílanna segi nefnilega að þjónusta skuli bílana og skipta um olíu á 30 þúsund kílómetra fresti. Markaðslega hljómi það auðvitað afar fallega og aðlaðandi. Raunveruleikinn sé hins vegar sá að skipta þurfi um vélarolíu og olíusíu helmingi oftar, eða á 15 þús. km fresti ef vélin eigi að endast eðlilega.