Verð hlutabréfa í Fiat Chrysler lækkaði á föstudag
Verð hlutabréfa í Fiat Chrysler Automobiles féll sl. föstudag um 1,8% eftir að ráðamenn Fiat neituðu á síðustu stundu að mæta á fund með þýskum yfirvöldum sl. fimmtudag um falsbúnað sem fundist hefur í Fiatbílum. Verð hluta í öðrum evrópskum bílaframleiðslufyrirtækjum stóð í stað á sama tíma.
Búnaðurinn sem fundist hefur í Fiatbílum (o.fl. bifreiðategundum) er til þess gerður að rugla útblástursmengunarmælingar og fegra niðurstöður þeirra. Samgönguráðherra Þýskalands, Alexander Dobrindt, hefur gagnrýnt Fiat harðlega fyrir fjarveruna og þvermóðskuna.
Fiatbílar, eins og nokkrar aðrar bílategundir, hafa undanfarið sætt rannsókn á því hvort eyðslu – og útblástursgildi bílanna í gerðarviðurkenningargögnum þeirra standist. Í þessum rannsóknum hefur fundist tölvubúnaður sem fegrar niðurstöður mengunarmælinga en er annars óvirkur að meira eða minna leyti. Slíkur búnaður hefur fundist í Fiatbílum í Þýskalandi og voru Fiatmenn þess vegna boðaðir til fyrrnefnds fundar með þýsku samgöngustofunni sl. fimmtudag. Enginn mætti nema sendiboði sem afhenti lögfræðibréf á fundarstaðnum. Í því stóð að Þýskaland hefði enga lögsögu gagnvart Fiat sem væri ítalskt fyrirtæki. Í morgun (mánudag 23. maí) gerðist það svo að Graziano Delrio, samgönguráðherra Ítalíu blandaði sér í málið og sagði að þýskum yfirvöldum bæri að hafa samband við ítölsku samgöngustofuna vegna þessa máls en ekki beint við framleiðandann sjálfan.