Verða tollar á kínverska bíla bölvun frekar en blessun fyrir Evrópu?

Innan Evrópusambandsins er byrjað að leggja viðbótartolla á rafknúin ökutæki frá Kína. Tollaheimildin tók formlega gildi föstudaginn 1. nóvember 2024. Þessir tollar, sem geta verið allt að 37,6%, koma til viðbótar við 10% innflutningstolla sem voru þegar í gildi.

Ákvörðunin var tekin í kjölfar rannsóknar á meintum ríkisstyrkjum til kínverskra bílaframleiðenda. Framkvæmdastjórn ESB segir tollana viðbrögð við ósanngjörnu samkeppnisforskoti Kínverskra rafbíla vegna ríkisstyrkja.

Sumir evrópskir bílaframleiðendur hafa lýst yfir áhyggjum af þessum tollum og vara við því að þeir gætu haft neikvæð áhrif á evrópska bílaframleiðslu. Þeir telja þetta geta grafið undan iðnaðarstefnu ESB og skaðað hagsmuni þeirra fyrirtækja sem starfa á alþjóðlegum mörkuðum.

Margir sérfræðingar hafa einnig varað við neikvæðum áhrifum tollanna á framboð vistvænna ökutækja á hagstæðu verði á evrópskum markaði sem skapar verðbólguþrýsting og tefur orkuskipti í samgöngum

Til að bregðast við þessum tollum hafa sum kínversk fyrirtæki ákveðið að byggja bílaverksmiðjur erlendis, meðal annars í Evrópu. Fyrirtækin koma sér þannig undan tollum og styrkja samkeppnishæfni sína verulega á alþjóðlegum mörkuðum. Fyrir nokkrum áratugum mátti sjá svipaða þróun hjá bílaframleiðendum í Japan og síðar Kóreu sem hafa byggt mikið af verksmiðjum utan heimalandanna.

Neikvæð áhrif tollmúra

Auknir tollar á kínverska rafbíla geta haft neikvæð áhrif á evrópska bílaframleiðslu. Markmiðið er að vernda innlenda framleiðslu en það eru þröskuldar í veginum:

  1. Hærri kostnaður fyrir evrópska framleiðendur

Margir evrópskir bílaframleiðendur, eins og Volkswagen og BMW, starfa á kínverskum mörkuðum eða hafa samstarf við kínverska birgja. Ef Kína bregst við með gagntollum á evrópska bíla, getur það leitt til aukins kostnaðar og minni hagnaðar fyrir evrópsk fyrirtæki sem flytja út til Kína.

Evrópskir framleiðendur sem nota kínversk framleidd rafhlöðukerfi eða bílaíhluti geta séð hækkandi verð á þessum vörum, sem hækkar verð á þeirra framleiðslu í erfiðu samkeppnisumhverfi.

  1. Samdráttur í útflutningi til Kína

Kína er einn stærsti markaður evrópskra bílaframleiðenda. Ef Kína setur tolla á evrópska bíla sem hefndaraðgerð, gæti það leitt til samdráttar í útflutningi. Þetta myndi sérstaklega hafa áhrif á lúxusbílaframleiðendur eins og Mercedes-Benz og Audi sem hafa mikilla hagsmuna að gæta á kínverskum markaði.

  1. Uppbygging kínverskra bílaframleiðenda innan Evrópu

Nokkur kínversk fyrirtæki eru að undirbúa uppbyggingu á bílaverksmiðjum í Evrópu til að forðast innflutningstolla. Tolllausir Kína bílar setja mikinn þrýsting á evrópska framleiðendur og þá sérstaklega í lægri verðflokkum.

  1. Seinkun á orkuskiptum

Auknir tollar á kínverska rafbíla geta dregið úr aðgengi að ódýrari rafbílum, sem hægir á grænni umbreytingu í Evrópu. Þar sem kínverskir rafbílar eru oft ódýrari en evrópskir valkostir, gæti minni samkeppni leitt til hægari upptöku rafbíla og tafið markmið ESB um minni kolefnislosun.

  1. Neikvæð áhrif á neytendur

Evrópskir neytendur gætu staðið frammi fyrir færri valkostum og hærra verði á rafbílum. Auknir tollar draga úr samkeppni og geta gert rafbíla óaðgengilegri fyrir verðnæma kaupendur.

Í stuttu máli: Þó tollarnir séu ætlaðir til að vernda evrópska framleiðslu, gætu þeir leitt til aukins kostnaðar, samdráttar í útflutningi og seinkunar á orkuskiptum, sem gæti haft langtíma neikvæð áhrif á iðnaðinn. Tollarnir auka einnig á verðbólguþrýsting.

Engin áhrif hér á landi nema Alþingi ákveði það sérstaklega

Við fyrirspurn FÍB hvort þessir tollar hefur áhrif á verð bíla hér á landi sagði Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, að Ísland er ekki hluti af tollabandalaginu og því hafa tollar sem lagðir eru á við innflutning til ESB engin áhrif hér á landi nema Alþingi ákveði það sérstaklega. Evrópugerðir á sviði tollamála eru ekki hluti af EES-samningnum og því er Íslandi ekki skylt að innleiða slíkar gerðir hér á landi.

Þar að auki hafa tollar ESB í þessu tilliti þann tilgang að vernda Evrópska bifreiðaframleiðslu fyrir niðurgreiddri framleiðslu sem kemur frá þriðja ríki (anti-dumping). Íslensk bifreiðaframleiðsla er hið minnsta í skötulíki enn sem komið er og því ekki miklar líkur á að stjórnmálin telji þörf á að koma þessum tollum á.

Hins vegar getur til þess komið að ESB hvetji Ísland til að koma slíkum tollum á og dæmi eru um að slík erindi hafi borist frá Brussel, t.d. vegna reiðhjóla og varahluta fyrir reiðhjól. Fræðilega gætu Íslendingar mögulega beitt undirboðsákvæðum 16. gr. fríverslunarsamnings Íslands og Kína. Hingað til hafa Íslendingar hins vegar ekki brugðist við slíkum beiðnum frá ESB.