Verðkönnun FÍB á rúðuvökva – verðlækkun á milli ára

FÍB hefur gert verðkönnun á rúðuvökva og reiknað út lítraverð miðað við -9 gráðu frostþol.  Daginn sem verðkönnunin var framkvæmd var rúðuvökvinn sem fæst í Bauhaus á hagstæðasta verðinu eða 51 króna á lítra. Út frá frostþolsforsendunni er verðmunur milli dýrasta vökvans og þess ódýrasta 235 prósent. Meðalverðið á rúðuvökva í könnuninni er 120 krónur á lítra miðað við -9°C frostþol en sá dýrasti fæst  hjá Olís og þar er lítraverðið 171 króna.

Í samanburði við samskonar könnun sem FÍB framkvæmdi fyrir ári síðan þá hefur meðalverð á rúðuvökva lækkað um 4 krónur á lítra og ódýrasti vökvinn nú er 35 krónum ódýrari á lítra miðað við -9°C frostþol. 

Meginefnin í rúðuvökva eru vatn og spíri en blönduhlutföll þessara meginefna er nokkuð mismunandi frá einum framleiðanda til annars. Því er frostþolið að sama skapi mismunandi. Samkvæmt upplýsingum sem FÍB aflaði hjá efnafræðingi þarf að vita eðlisþyngd blöndunnar til að geta glöggvað sig á hlutfalli spíra og vatns í rúðuvökva og þar með frostþol vökvans. Eðlisþyngd vatns er 1. Það þýðir að einn lítri af vatni er eitt kíló að þyngd. Spíri (etanól og ísóprópanol) er léttari en vatnið og ef eðlisþyngd rúðuvökva er 0,98 er frostþol blöndunnar í kring um -3 gráður. En sé eðlisþyngd hennar 0,96  er frostþolið í kring um -17 gráður. Sé eðlisþyngdin 0,97 er frostþolið nokkurnveginn mitt í milli. Ýmis önnur efni, eins og sápa kunna að vera í rúðuvökva, en þau eru í það litlum mæli að þau breyta frostþolinu sáralítið til eða frá.

Það er út frá þessum forsendum sem við höfum reiknað verð rúðuvökvanna til að neytendur geti fengið skýran verðsamanburð út frá einni og sömu forsendunni.

Lægsta lítraverð rúðuvökva, sé ekki tekið tillit til frostþols, reyndist einnig vera hjá Bauhaus en frostþol hans -21°C. Hæsta lítraverðið á sama hátt var á rúðuvökva frá Húsasmiðjunni 375 krónur en sá vökvi þolir -22 stiga frost.

Rúðuvökvinn frá Bauhaus sem reyndist á hagstæðasta verðinu miðað við frostþol, fæst í fimm lítra brúsum sem kosta 595 krónur. Frostþol vökvans í brúsunum er -21 gráður. Það jafngildir því að miðað við -9 gráðu frostþol er lítraverðið 51 króna.

Segja má að -9 gráðu frostþol sé tæpast nægilegt. En það dugar nokkurnveginn á höfuðborgarsvæðinu þar sem fremur sjaldgæft er að frost verði mikið meira en það. Öðru máli gegnir hins vegar víða inn til landsins þar sem frost verða talsvert harðari oft á tíðum.

Konnun fib ruduvokvi feb 2014

 

Uppgefið frostþol rúðuvökva stenst illa

-frýs við allt að 11 gráðum hærra hitastig en innihaldslýsing tilgreinir

 Nánar hér http://www.fib.is/?FID=3851