Verðmerkingar í lagi hjá 18 af 33 dekkjaverkstæðum
Könnun sem Neytendastofa gerði daganna 1.-5. apríl leiddi í ljós að 18 af 33 dekkjaverkstæðum á höfuðborgarsvæðinu voru með verðskrá sýnilega á staðnum. Fjögur verkstæði voru með verðskrá en hún var ekki sýnileg og 11 voru ekki með verðskrá til staðar. Af þeim 17 vefsíðum sem skoðaðar var verðskrá á 9 síðum.
Afdráttarlaus skylda hvílir á seljendum að birta verð því neytendur eiga að geta séð verðskrá þar sem kemur fram hvað þjónustan kostar og geta út frá því borið saman verð á milli fyrirtækja.
Athugað var hvort verðskrá væri sýnileg á staðnum og á vefsíðum fyrirtækjanna þar sem skylt er að gefa upp verð bæði þar sem þjónusta er kynnt og seld. Þegar skoðaðar eru vefsíður dekkjaverstæða þá eiga líka að koma fram upplýsingar svo neytandinn vita við hvern er verið að versla svo sem kennitala, netfang, vsk. númer, hlutafélagaskrá og starfsleyfi.
Neytendastofa upplýsti dekkjaverkstæðin í framhaldinu um þær skyldur sem á þeim hvíla og fór fram á úrbætur þar sem þörf var á.
Neytendastofa hvetur neytendur til að vera á verði og koma ábendingum um verðmerkingar til skila í gegnum Mínar síður sem finna má á vefslóðinni www.neytendastofa.is