Verðsamráð í bílaíhlutum
Reuters fréttastofan greinir frá því í morgun að Bandaríkjadeild sænska bílaíhlutaframleiðandans Autoliv hafi gerst sek um verðsamráð og samkeppnishamlandi starfsemi á Bandaríkjamarkaði í því skyni að halda uppi verði. Þetta var gert með því að Autoliv í Bandaríkjunum hafði samráð við dótturfélag sitt í Japan um að halda uppi hæsta mögulega verði framleiðsluvara. Autoliv er mjög stórt í framleiðslu öryggisbúnaðar í bíla og framleiðir m.a. öryggisbelti, loftpúða og stýrishjól. Reuters hefur eftir bandaríska dómsmálaráðuneytinu í Washington að forráðamenn Autoliv hafi samþykkt að viðurkenna sök og greiða 14,5 miljón dollara dómsátt fyrir brot sín.
Fimm önnur fyrirtæki í sama geira hafa jafnframt verið fundin sek um svipað athæfi og Autoliv. Þau eru Fujikura Ltd, Furukawa Electric Co Ltd , Denso Corp, Yazaki Corp and G.S. Electech. Jafnframt hefur forstjóri Yazaki Group; Kazuhiko Kashimoto fallist á að sitja inni í 14 mánuði og greiða einnig 20.000 dollara sekt. Hann er 10 maðurinn í bílhlutageiranum í Bandaríkjunum sem fundinn hefur verið sekur um glæpsamlegt verðsamráð í Bandaríkjunum síðustu mánuðina.
Málið er ekki stjórnendum Autoliv í höfuðstöðvunum í Svíþjóð að skapi. Forstjórinn, sem heitir Jan Carlson, segir að það sé alger ósvinna að Autoliv skuli hafa þvælst út í þetta fen og hjá sér og stjórninni í Svíþjóð hafi það verið algert forgangsmál að vinna af heilindum með bandaríska dómsmálaráðuneytinu að því að upplýsa alla þætti þess eins fljótt og vel og kostur var.