Verðsveifla sem ekki hafi sést í Evrópu
Hækkun á eldsneytisverði á Íslandi undanfarið virðist vera í beinum tengslum við miklar breytingar á heimsmarkaðsverði á olíu og virðist álagning olíufyrirtækjanna sjálfra ekki hafa hækkað.
„Meðalálagning olíufyrirtækja miðað við heimsmarkaðsverð á olíu það sem af er marsmánuði er aðeins lægri en meðalálagning ársins,“ segir Runólfur Ólafsson framkvæmdarstjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB. Ekki er því rétt sem oft er haldið á lofti upp á síðkastið að olíufyrirtækin séu að hækka verð umfram hækkun á heimsmarkaði.
Runólfur segir sem dæmi hafi verð á bensíni frá áramótum hækkað um 35 kr hjá N1 en um 25 krónur hjá Costco. Ef horft er á verðhækkun frá fyrsta janúar 2021 hefur verð hækkað um 77 krónur hjá N1 en 72 krónur Hjá Costco. Er því til langs tíma um að ræða svipaðar hækkanir hjá báðum fyrirtækjum.
Skelfileg verðþróun
,,Auðvitað er um skelfilega verðþróun að ræða,“ segir Runólfur um hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu og en bensínverð ríkur nú upp úr öllu valdi í kjölfar innrásarstríðs Rússa. Þetta sé verðsveifla sem ekki hafi sést í Evrópu í manna minnum. Runólfur segir að enn ógnvænlegri verðþróun sjáist á dísilolíu. Þetta mun hafa áhrif á rekstur heimilanna, rekstur fyrirtækja, hafa áhrif á aðdrætti, flutninga og flug.
FÍB hefur sent áskorun til stjórnvalda þar sem kallað er eftir að stjórnvöld dragi tímabundið úr skattheimtu á olíu til að koma í veg fyrir verðbólguskot og lágmarka skaðleg áhrif á þjóðlífið. Um það bil helmingur af hverjum seldum lítra á dælu hér er skattur í ríkissjóð þannig að það er ekkert óeðlilegt að stjórnvöld komi núna að borðinu og lækki allavega tímabundið skatta. Fordæmi séu fyrir slíku.