Verður rafbíll „bíll ársins“ 2012 í Danmörku?
Bíll ársins í Danmörku verður valinn um miðjan október nk. Í úrslitum eru nú 20 bílar, þar af eru þrír rafbílar. Þeir eru Opel Ampera sem er með innbyggðri bensínrafstöð, Nissan Leaf og Mitsubishi Imiev sem eru hreinir rafbílar. Nissan Leaf var valinn bíll ársins í Evrópu fyrir ári. Þetta er í fyrsta sinn sem rafbílar komast í úrslit við val á bíl ársins í Danmörku.
Val á bíl ársins 2012 á Íslandi hefur þegar farið fram og varð bíll sem gengur fyrir innlendu eldsneyti (metangasi) hlutskarpastur – Volkswagen Passat. Engin rafbíll var tilnefndur hér á landi, sem út af fyrir sig hefði varla talist fráleitt í jafn raforkuríku landi og Ísland er.
En þeir voru upphaflega fleiri rafbílarnir sem tilnefndir voru í upphafi til kapphlaupsins um titilinn í Danmörku. Að nafninu voru þeir sex en voru í raun þrír - Nissan Leaf, Opel Ampera og þá Mitsubishi Imiev undir eigin nafni en líka undir merki Citroen og Peugeot, en allt er þetta í rauninni einn og sami bíllinn.
Lokavalið á bíl ársins fer fram á Jyllandsringen; lokuðu keppnis- og aksturssvæði FDM, systurfélags FÍB og úrslit verða tilkynnt þann 12. október nk. Annars lítur danski úrslitalistinn þannig út:
1 Audi A6 2 Audi Q3 3 BMW 1-serie 4 Chevrolet Orlando 5 Chevrolet Aveo 6 Citroën C-Zero/Mitsubishi Imiev/Peugeot Ion 7 Citroën DS4 8 Ford Focus 9 Hyundai i40 10 Hyundai Veloster 11 Kia Picanto 12 Kia Rio 13 Lexus CT 200h 14 Mazda 5 15 Nissan Leaf 16 Opel Ampera 17 Opel Zafira 18 Peugeot 508 19 Toyota Verso S 20 Toyota Yaris