Verkefnum fjölgar með auknum ferðamannastraumi
Stálkrókur á Selfossi hefur umsjón með FÍB aðstoð á svæði þar sem fer um ein mesta umferð á landinu. Stálkrókur hefur annast þessa aðstoð í tæplega 20 ár og segir Axel Gíslason framkvæmdastjóri fyrirtækisins að ýmislegt hafi breyst á þessum tíma. Umferðin hafi aukist gífurlega og bílarnir hafi tekið miklum breytingum og þá sérstaklega hvað öryggi þeirra varðar.
„Ég keypti fyrirtækið af félaga mínum og hann var ennfremur með FÍB aðstoðina á sínum snærum. Ég tók við keflinu og hef haldið því alla tíð síðan eða í rösk 20 ár. Ég man tvenna tíma í þessum efnum og má segja að flest sem lítur að rekstrinum hafi tekið stakkaskiptum. Verkefnin hafa aukist til muna með auknum ferðamannastraumi til landsins. Við erum oft að koma erlendum ferðamönnum til aðstoðar sem langflestir eru á eigin bílum en oft aðstoðum við einnig ferðamenn á bílaleigubílum. Þessi aðstoð er aðallega fólgin í flutningi á bílum sem þurfa að komast á verkstæði. Þá aðstoðum einnig fólk sem hefur fest bíla sína og síðan verða bílar rafmagnslausir eins og gerist. Einnig springa dekk og þá kemur stundum fyrir að fólk setur rangt eldsneyti á bílana. Því er óhætt að segja að í mörg horn er að líta en við erum alltaf til staðar og komum fólki til hjálpar um leið og kallið berst,“ sagði Axel Gíslason.
Axel sagði að þjónustusvæði hans nái að Þjórsá en hann hafi þó stundum sinnt aðstoð allt til Víkur í Mýrdal. Hann segir að tveir einstaklingar komi að aðstoðinni og konan hans sjái um bókhaldið. Starfið sé spennandi og umfram allt gefandi. Hann viti í raun aldrei hvað morgundagurinn beri í skauti sér.
„Við búum yfir ágætum tækjakosti og höfum afnot að fjórum bílum í þetta verkefni. Það skiptir máli til að geta sinn þjónustunni eins vel og hægt er. Sumarið er allaf annasamasti tími ársins og sé ég fram á að nóg verði að gera hjá okkur með hækkandi sól,“ sagði Axel Gíslason.