Verstu bílarnir að mati Forbes
Bandaríska tímaritið Forbes hefur birt lista sem séð með bandarískum augum tímaritsins eru verstu bílar heims. Margir þessara „vondu“ bíla eru því ekki á almennum markaði í Evrópu. Fáein eintök af sumum þeirra, eins og t.d. Cadiollac Escalade fyrirfinnast þó hér á landi.
Verstu bílarnir að mati Forbes |
1. Cadillac Escalade 2. Chevrolet Aveo 3. Chevrolet Colorado 4. Chevrolet Tahoe Hybrid 5. Chrysler Town & Country 6. Dodge Dakota 7. Dodge Nitro SLT 8. Jeep Liberty 9. Jeep Wrangler Unlimited 10. Mercedes S550 11. Nissan Titan 12. Smart ForTwo |
Forbes hefur beitt þeirri aðferð að bera saman fjölmargar greinar og umfjallanir um bíla í blöðum og tímaritum þar sem fjallað er um rekstraröryggi bílanna, hversu vel þeir verja þá sem í þeim eru ef slys ber að höndum, áreiðanleika, eldsneytiseyðslu, aksturseiginleika og reksturskostnað. Síðan eru einkunnir sem gefnar eru fyrir þessi atriði lagðar saman.
Að öllu þessu samanlögðu er það risajeppinn Cadillac Escalade sem fer með sigur af hólmi sem versti bíllinn. Hann er stór, rándýr og mjög eldsneytisþyrstur. Það sem dregur þennan bíl svo afgerandi niður er eyðslan og stærðin, sem ná ekki að vega upp á móti því að Escalade kemur vel út úr bandarískum árekstrarprófunum. Það nær þó ekki að hífa hann upp.
Bandarísku bílarnir Chrysler Town & Country, Jeep Wrangler, Jeep Liberty, Dodge Nitro og Dodge Dakota veita svo Cadillac Escalade harða keppni um titilinn versti bíllinn.
Evrópskir og japanskir bílar að uppruna eru fremur fáir á þessum lista. Þó bregður þar fyrir ofarlega lúxusbílnum Mercedes S550 vegna þess hversu dýr hann er, eyðslufrekur og dýr í rekstri. Á listanum eru einnig Nissan Titan og Smart Fourtwo. Sá síðastnefndi er á listanum vegna þess hve Forbes telur hann vera óáreiðanlegan.
Að vonum eru talsmenn bandarísku bílaframleiðendanna ekkert ánægðir með þennan lista. Þeir segja eðlilegt og sjálfsagt að meta bíla á gagnrýninn hátt en telja fráleitt að leggja saman einkunnir margra bílamanna fyrir eiginleika sem menn meta út frá mjög mismunandi sjónarhornum og forsendum. Einn af framkvæmdastjórum GM segir Forbes hafa gert þetta líkt og manneskja sem leitaði að sæmilegu arbandsúri sem mældi tímann rétt. En þegar hún svo valdi sér úr frá Casio þá fór hún að skammast út af því hversu Rolex úrin séu dýr. Á sama hátt gangi ekki að dæma dýra og vandaða bíla sem ómögulega. Þeir hafi annan búnað og aðra eiginleika en ódýrari bílarnir.