Verstu bílstjórar í USA eru í Louisiana
Verstu ökumenn Bandaríkjanna eru í ríkinu Louisiana samkvæmt árlegri bandarískri tölfræðirannsókn sem unnin er upp úr slysa- og umferðarbrotaskrám af stofnun sem heitir Car Insurance Comparison. Þetta er í annað árið í röð sem ökumenn í Louisiana njóta þessa vafasama heiðurs. Bílafréttamiðillin The Detroit Bureau greinir frá þessu.
Það er alkunna að ökumenn sem gefa sig í það stundum að aka utan heimahaga sinna finnst umferðin utan heimahaganna vond og ökumennirnir afleitir. Það finnst líka ökumönnum á svæði því í norður Louisiana sem kallast Sportsman’s Paradise. Tölfræðin sýnir hins vegar allt annað, eða það, að hvergi í Bandaríkjunum eru verri ökumenn en einmitt þar.
Í umræddri rannsókn Car Insurance Comparison eru borin saman atriði eins og banaslysatíðni pr. 100 milljón eknar mílur og tíðni umferðarbrota eins og að aka gegn rauðu ljósi, hlýða ekki fyrirmælum umferðarmerkja, aka drukkinn, spenna ekki beltin og aka of hratt og glannalega. Ökumenn í Louisiana voru í sérflokki með það að hlýða ekki umferðarmerkjum, aka of hratt og ástunda almennan háskaakstur í umferðinni. Næst verstir voru ökumenn í Suður Karólínuríki.
Rannsóknin náði til allra 50 ríkja Bandaríkjanna og var unnin úr gögnum frá umferðaröryggisstofnuninni NHTSA, samtökunum Mæður gegn ölvunarakstri og samtökum bandarískra bifreiðaeigendafélaga. En válisti 9 verstu ríkjanna í þessu tilliti er svona:
1. Louisiana
2. South Carolina
3. Mississippi
4. Texas
5. Alabama
6. Florida
7. Missouri og North Carolina
8. Montana
9. North Dakota
Montana var í nokkrum sérflokki fyrir það að þar reyndist fylliríisakstur algengastur og dauðaslysatíðni hæst. Ökumenn í Kentucky reyndust fara minnst allra eftir umferðarmerkjum, Hraðakstur var algengastur í Nevada og kærulaus akstur var algengastur í Florida.
Bestu ökumennirnir reyndust vera í Vermont. Þeir næst bestu í Utah. Næst koma Minnesota, New Hampshire og Oregon. Það er því samkvæmt þessu öruggast að vera úti í umferðinni í Vermont.