Vetni í pilluformi
07.09.2005
Vetnisknúinn Mercedes Benz A.
Hópur vísindamanna við Danmarks Tekniski Institut eru nú á ráðstefnu í Chicago í Bandaríkjunum að kynna aðferð sem þeir hafa þróað undangengin tvö ár til að geyma vetni í pilluformi. Aðferðin er mjög mikilvægt skref í þá átt að gera vetnisknúin farartæki að raunhæfum kosti. Það hafa vetnisfarartæki vart getað orðið hingað til vegna þess hve vandasamt og dýrt það er að safna vetninu saman og geyma það, hvort heldur sem er á afgreiðslustöðvum eða um borð í sjálfum farartækjunum.
Talsmaður vísindamannahópsins er Claus Hviid Christensen efnafræðiprófessor. Hann segir við danska blaðið Jyllands Posten að uppgötvuninni hafi verið haldið leyndri fram að þessu meðan einkaleyfastofur um allan heim hafa afgreitt einkaleyfi á aðferðinni. Aðferðin er að sögn prófessorsins hin fyrsta sem er raunhæf hvað varðar geymslu á vetni.
Prófessorinn segir að geymsluaðferðin felist í því að binda vetnið við ammoníak og salt og geyma í pilluformi. Engin orka tapist við það að koma vetnisorkunni fyrir í pillunum né við að ná henni þaðan aftur. Þá tapist orkan ekki úr pillunum við geymslu. „Undanfarin 20 ár hafa menn um allan heim leitað leiða til að geyma vetnisbirgðir á ódýran og öruggan máta en með litlum árangri. Hingað til hefur því ekki með réttu verið hægt að halda því fram að vetnissamfélagið sé handan við hornið en nú gegnir öðru máli. Við höfum fundið aðferðina,“ segir Claus Hviid Christensen.
Søren W. Rasmussen tæknistjóri hjá FDM, systurfélagi FÍB í Danmörku segir að vissulega vænti menn mikils af vetninu sem orkugjafa framtíðarinnar fyrir bíla en hann hvetur til raunsæis. Fyrstu vetnisbílanna sé ekki að vænta í almenna sölu fyrr en eftir áratug hið fyrsta. Umskiptin frá dísil- og bensínknúnum bílum í vetnisbíla muni hins vegar taka mun lengri tíma, enda bendi ekkert til annars en að þær olíulindir sem í dag eru nýttar, dugi að minnsta kosti í 50 ár til viðbótar.