Vetnisbíll frá GM í heimsókn
Vetnisknúinn bíll og mannskapur frá General Motors hefur verið hér á landi undanfarna daga á vegum Íslenskrar nýorku að kynna starfsemi og fyrirætlanir GM í sambandi við vetnisknúna bíla. Jafnframt hafa fulltrúar GM verið að kynna sér hérlendar tilraunir með vetnisfarartæki og vetnisframleiðslu. Forystumaður GM hópsins er Britta Gross en hún er yfirmaður þeirrar deildar GM sem fer með markaðs- og þróunarmál vetnisbíla.
Í samtali við fréttavef FÍB sagði Britta Gross að tekist hefði að yfirstíga eða lækka ýmsar hindranir í vegi fyrir notkun vetnis sem „eldsneytis“ fyrir bifreiðar. GM væri þegar búið að leggja mjög mikið fé og fyrirhöfn í tilrauna- og þróunarstarf og nú væri svo komið að vetnisbílar sem standast hefðbundnum jarðefnaeldsneytisknúnum bílum snúning hvað varðar verð, eru í sjónmáli innan fárra ára. Hjá GM sagði hún unnið ötullega að því að undirbúa fjöldaframleiðslu hagkvæmra og notadrjúgra vetnisbíla. Fyrirtækið telji sig geta verið tilbúið til þess innan næstu fimm til tíu ára. En hvort slík framleiðsla getur þá hafist með hagkvæmum hætti sé að sjálfsögðu háð því hvort innviðir fyrir vetnisbílaumferð verði þá tilbúnir, sjálft eldsneytið á vetnisbílana sé fáanlegt á afgreiðslustöðvum o.s.frv.
FÍB gafst kostur á að aka í vetnisbílnum sem er Opel Zafira og var ökumaðurinn Þórhallur Jósefsson fréttamaður á RÚV. Bíllinn var í raun ósköp svipaður í akstri og venjulegur sjálfskiptur bíll, kannski heldur slappari í vinnslu. Innviðir hans eru hins vegar nokkuð aðrir því að í stað hefðbundins bensín- eða dísilhreyfils og gírkassa er kominn stór rafmótor. Rafmótorinn fær straum frá efnarafal sem breytir vetni í rafstraum. Þetta er algengasta útfærsla vetnisknúinna bíla og því má segja að vetnisbílar sem þessi eru í raun rafbílar en í stað rafgeyma er vetnisgeymir, sem í þessum bíl var undir aftursætinu, og efnarafall sem breytir vetninu í rafmagn. Við það myndast tandurhrein vatnsgufa sem rýkur út um púströrið.
Hinn augljósi kostur við það að nota vetnið á þennan hátt er sá að ekki nokkur einasta mengun berst út í andrúmsloftið frá bílnum. Gallarnir eru hins vegar nokkrir og allir heldur slæmir að yfirstíga. Þeir eru þeir helstir að vetnið þarf að búa til úr rafmagni og þá vaknar spurningin, hvernig er rafmagnið búið til?
Hér á Íslandi búum við svo vel að geta framleitt það með því að virkja vatnsföll eða gufuborholur en fæstar þjóðir geta slíkt heldur verða að búa rafmagnið til í kjarnorkuveri eða með því að brenna gasi, kolum eða olíu. Með því mótinu er mengunin frá bílanotkuninni áfram til staðar, bara búið að færa hana af vegunum og eitthvert annað.
Þá er það slæmur galli við vetnið sjálft hversu gríðarlega rokgjarnt það er og erfitt að hemja það um borð í bílunum sjálfum. Það hefur hingað til verið gert með því að geyma það undir mjög miklum þrýstingi sem hefur í för með sér sprengihættu, t.d. við árekstur. En nýlega hafa borist fréttir af dönskum vísindamönnum sem fundið hafi upp pillu sem geymir í sér umtalsvert magn af vetni án þess að nokkur þrýstingur, sprengi- eða eldhætta sé af. Kannski þar sé geymsluaðferðin loksins fundin?
Vetnisbíllinn frá GM er Opel Zafira en í stað venjulegrar bílvélar og gírkassa er rafmótor, efnarafall og vetnisgeymir.
Hér er efnarafallinn og undir honum rafmótorinn sem knýr bílinn áfram.
Stjórntæki og mælar vetnisbílsins er allt svipað og í venjulegum Opel Zafira. Litli mælirinn lengst til hægri sýnir hversu mikið vetni er eftir á tönkunum. Sá litli lengst til vinstri sýnir vinnsluhita knýbúnaðarins, svipað og í venjulegum bíl. Stóri mælirinn til hægri er hraðamælir og sá til vinstri sýnir hversu mikla orku bíllinn er að nota. Hann stígur í brekkum upp í móti og fellur niður í móti.