Vetrardekk eða fjórhjóladrif?
Þegar veturinn gengur í garð er mikið leitað til FÍB um ráðleggingar í dekkjamálum. Ein algengasta spurningin sem starfsfólk fær um þessi mál er þessi: -Bílinn minn er með sítengdu fjórhjóladrifi. Þarf ég nokkuð á því að halda að skipta yfir á vetrardekk?
En það mætti kannski allt eins snúa spurningunni við og spyrja: Í stað þess að fá mér dýrari fjórhjóladrifinn bíl, sem líka eyðir aðeins meiru, ætti ég ekki heldur að spara peninginn og fá mér bara framhjóladrifinn bíl og skipta yfir á vetrardekk að haustinu?
Breska bílablaðið Autocar hefur nú prófað tvo bíla af Skoda Yeti gerð í nokkuð dæmigerðu bresku (og reyndar íslensku) vetrarfæri – vel blautum snjó. Í fyrsta lagi var tekið af stað beint áfram upp í tiltekinn hraða. Í öðru lagi var ekið upp að ákveðnum hraða og síðan hemlað. Í þriðja lagi var ekið um hringtorg, eins hratt og veggripið leyfði.
Bílarnir voru eins að öllu öðru leyti en því að að annar var með sítengdu fjórhjóladrifi en hinn einungis framhjóldadrifinn. Í stuttu máli þá reyndist fjórhjóladrifni bíllinn á sumardekkjunum aðeins duglegri og fljótari rétt fyrst að krafsa sig áfram úr kyrrstöðu en tapað að lokum fyrir þeim framhjóladrifna á vetrardekkjunum. Fjórhjóladrifni bíllinn á sumardekkjunum var mun síðri í hringtorgsakstrinum. Ennfremur þurfti hann miklu lengri vegalengd til að stöðvast. Sjá prófunina hér.
Niðurstaðan er því sú að vetrardekkin eru það sem dugar fyrst og fremst í vetrarfærinu.