Vetrarfæri og ofdirfska?
Landsmenn hafa verið óþyrmilega minntir á norðlæga hnattstöðu landsins það sem af er vetri. Illviðri og stórhríðar hafa geisað víða um landið æ ofan í æ og haft slæm áhrif á allar samgöngur og hreyfanleika fólks. Vegir hafa orðið illfærir og stundum ófærir og það sem verst er að mörg umferðarslys, sum alvarleg, hafa orðið sem má rekja til vetrarfærðarinnar að einhverju eða jafnvel miklu leyti.
Á nýliðnu ári glötuðust 15 mannslíf í umferðarslysum. Það er slæm breyting til hins verra miðað við árið 2012 en þá létust níu manns í umferðarslysum. Þótt varasamt sé að draga stórar ályktanir af þessari aukningu milli ára, vegna þess hve fá við erum og hið tölfræðilega mengi lítið, þá er þetta óneitanlega nokkur áminning til okkar allra að fara varlega.
Umferðarslys hafa því miður verið allt of tíð undanfarnar vikur og vissulega má segja að rysjótt veðrið og færðin hafi átt þar nokkurn þátt. En við sjálf hljótum engu að síður að þurfa að líta í eigin barm. Förum við nógu varlega eða erum við of gjörn á að ana út á vegina í vitlaus veður eða þegar óveður eru við það að bresta á og treysta síðan á Guð og lukkuna - og björgunarsveitirnar?
Þegar flett er í gegn um fréttir fjölmiðla af umferðaróhöppum, vandræðum og ekki síst slysum síðustu dagana fyrir áramót og fyrstu daga ársins er það hrollvekjandi að sjá hversu mörg atvikin eru og hversu alvarleg sum þeirra eru eins og marka má af eftirfarandi upptalningu sem þó er hvergi tæmandi:
Þann 30. des. rákust tveir bílar saman á Hellisheiði. Ung kona sem var ein á ferð í öðrum bílanna lét lífið. Tveggja ára gamalt barn sem var ásamt móður sinni og systkini í hinum bílnum slasaðist og var flutt á gjörgæsludeild í Reykjavík.
Á nýjársdag fór björgunarsveit upp á Lyngdalsheiði milli Laugarvatns og Þingvalla til að aðstoða erlenda ferðamenn sem þar voru í vandræðum. Á heiðinni var hífandi rok og flughált.
2. janúar var óveður um vestan- og norðanvert landið og ekkert ferðaveður. Bálhvasst var, ofankoma og skafrenningur og mikil hálka á flestum vegum. Bílar fuku út af vegum í Húnavatnssýslum m.a. í Langadal. aðrir sátu fastir á Öxnadalsheiði, sumir næturlangt og björgunarsveitir frá Akureyri þurftu ítrekað að leggja á heiðina á sama sólarhringnum til að bjarga fólki sem sat þar fast. Þegar svo veðrinu slotaði þurfti að flytja fjölda yfirgefinna bíla burt svo hægt væri að snjóhreinsa veginn og opna hann að nýju.
4. janúar komst ástralskt par í vanda á Fjarðarheiði á litlum bílaleigubíl í flughálku. Parið kom frá Reykjavík og hugðist gista á Seyðisfirði. Bíllinn var á ónegldum hjólbörðum. Þegar í brekkurnar ofan Seyðisfjarðarbæjar kom, þorðu þau ekki niður svellþakinn veginn, en komust heldur ekki til baka og voru því í sjálfheldu. Fólkinu var bjargað í hús á Seyðisfirði mjög óttaslegnu.
Þann sama dag valt jeppi í flughálku á Kaldadal. Jeppin var frá ferðaþjónustufyrirtæki, ökumaður var íslenskur og með honum fjórir erlendir ferðamenn. Einn þeirra, kona, slasaðist í veltunni. Björgunarsveitir úr Borgarnesi og Akranesi björguðu fólkinu til byggða.
5. janúar varð umferðaróhapp á Vatnaleið á Snæfellsnesi og lokaðist vegurinn af þeim sökum. Daginn áður komust þrjár erlendar konur í vanda við Skjöldólfsstaði. Þær voru á austurleið frá Mývatni og óku eftir GPS leiðsögutæki sem beindi þeim inn á gamlan vegarslóða niður í Jökuldal. Flughált var og rann bíllinn útaf veginum í beygju og sat síðan fastur. Björgunarsveit kom þeim til aðstoðar, dró bílinn upp og fylgdi þeim síðan í gegn um snjóskafla og torfærur að Skjöldólfsstöðum. Þaðan gátu ferðalangarnir haldið áfram för sinni á sæmilega greiðfærum þjóðvegi 1 til Egilsstaða.
Í þessu sama útkalli aðstoðaði björgunarsveitin síðan fólk á Háreksstaðaleið. Mikill snjór og ófærð var á veginum og tók það björgunarsveitarfólkið um þrjár klst. að koma fólki og tveimur bílum um sjö km leið inn á þjóðveg 1 á ný.
6. janúar fór hópur úr björgunarsveitinni Dagrenningu á Hólmavík á fjórum torfærubílum upp á Steingrímsfjarðarheiði til að bjarga fólki sem sat þar fast í stórhríð í nokkrum nokkrum bílum. Þennan sama stórhríðardag fóru björgunarsveitir frá Flateyri og Þingeyri upp á Gemlufallsheiði og björguðu þar 11 manns úr sex bílum sem þar sátu fastir.
11. janúar festist fólksbíll í ófærð, skafrenningi og blindu á Fjarðarheiði. Bíllinn festist á snjóruðningi eftir snjóplóg sem var að ryðja veginn. Fólk á jeppum sem að þessu kom reyndi að losa fólksbílinn sem ekki tókst. Þá náðist samband við snjóplóginn og var hann á leið til hjálpar þegar bíll kom á fullri ferð utan úr skafrenningnum og blindunni og ók aftan á fasta fólksbílinn og gjöreyðilagði hann. Ökumaður fólksbílsins var inni í honum þegar áreksturinn varð. Hann kastaðist fram í framrúðuna sem brotnaði við höggið.
Sunnudaginn 12. janúar varð mjög alvarlegt umferðarslys á þjóðvegi 1 við Fornahvamm innst í Norðurárda. 16 ára stúlka lést í slysinu og 18 ára ökumaður bílsins slasaðist alvarlega og er á gjörgæsludeild Landspítalans. Þennan sama sunnudag varð harður árekstur á Jökulsárbrú á Sólheimasandi. Mikil hálka var á veginum og brúnni. Brúin er einbreið en skilti sem sýna það voru þakin snjó. Fjórir voru í bílunum tveimur sem rákust á. Enginn þeirra slasaðist alvarlega en lögreglumenn sem komu að slysinu áttu í erfiðleikum með að losa fólkið úr bílunum á brúnni vegna þrengsla, illviðris og kulda.
Þennan dag var vetrarríki um allt land og vitlaust veður á nánast allri leiðinni frá Norðlingaholti í Reykjavík og austur á Hornafjörð sem og um vestanvert landið. Þung færð varð strax á Sandskeiði og í brekkunni rétt austan við Litlu kaffistofuna sem kölluð er Draugahlíðarbrekka, myndaðist umferðarhnútur vel á annan tug bíla sem hvorki komust lönd né strönd enda allt ófært, flughált og blint. Meðal bíla í þeim hnút var sjúkrabíll. Svo fór að Vegagerðin lokaði veginum til að freista þess að firra frekari vandræðum sem vissulega voru nóg fyrir. Hjálparsveitir voru önnum kafnar þennan dag og langt fram á kvöld við að aðstoða fólk í bílum sem sátu fastir um mestalla Hellisheiðina og í Þrengslunum einnig. Ennfremur var veginum milli Víkur í Mýrdal til V. Eyjafjalla lokaður af svipuðum ástæðum.
Í gær, þann 13. janúar var ástandið orðið heldur skárra á Suðurlandi. Hálka var og er enn mjög mikil á vegum, sérstaklega í uppsveitum Árnessýslu. Vegna hennar valt bíll á Skeiðavegi, skammt frá Brautarholti. Tveir menn sem í bílnum voru sluppu ómeiddir.
Þá fauk og valt olíubíll út af veginum við Vallá á Kjalarnesi og ökumaður hans slasaðist og var lagður inn á gjörgæslu Landspítala.