Vetrarhörkur setja samgöngukerfið úr skorðum í Osló
Gríðarleg snjókoma og fimbulkuldi í Osló og á svæðinu í kringum höfuðborgina að undanförnu hefur sett almennings samgöngukerfið úr skorðum. Frostið hefur suma dagana farið yfir 30 gráður.
Frá því að snjó fór að kyngja niður í byrjun desember hafa komið upp ýmis vandamál hjá strætisvögnum knúnu rafmagni sem sinna almenningssamgöngum í Osló. Fyrr í vikunni var yfir 300 brottförum strætisvagna í Osló og Akershus aflýst og miklar tafir urðu á almenningssamgöngum.
Vagnarnir hafa ekki komist leiðar sinnar, misst allt rafmagn eða orðið fastir vegna kulda og snjóþunga á vegum. Í nokkrum tilvikum hefur verið gripið til þess ráð að nota fleiri dísilvagna en alla jafnan. Fjölda brottfara hefur orðið að aflýsa og neytendur hafa beðið tímunum saman eftir þjónustu. Í umræðunni um þetta óvenjulega ástand hefur verið rætt um það hvort inniviðir séu nægilega sterkir.
Yfirmenn samganga í Osló eru sammála um að finna verði leiðir til úrlausna því almennings samgöngukerfið verði að virka með öllum ráðum svo líf almennings verði með eins eðlilegum hætti og kostur er. Menn hafi hins vegar staðið ráðþrota vegna gríðarlegs fannfergis og frostharka.
Vandamál sem þetta hefur að vísu komið upp áður, strætisvagnar verða rafmagnslausir og komast hverki í hleðslu. Það ætti aftur á móti ekki að koma neinum á óvart að það getur svo sannarlega snjóað og orðið verulega kalt á þessu svæði.
Yfirvöld í Osló benda á að vandamálin sem almenningur hefur staðið frammi fyrir á síðustu vikum sé flókin. Nú verða hins vegar ráðamenn að setjast niður, fá yfirsýn á vandanum, og hvernig best verður brugðist við þegar upp koma þessar aðstæður i framtíðinni. Mikilvægt sé að daglegir vöruflutningar og almenningssamgöngur virki eins og kostur er.
Ráðmenn segja að sem betur fer eru þessi vandamál leysanleg. Bæta þarf flutningsgetu rafmagnsstrætisvagnanna, með tíðari hleðslu og betra aðgengi. Bæta aksturstímann þannig að vagnarnir verði ekki rafmagnslausir. Þess má geta að fyrstu rafmagnsvagnarnir í Osló voru teknir í notkun 2017. Hafa þeir reynst afar vel og sparað mikla fjármuni.