Vetrarríkið í Danmörku rekur menn á vetrardekkin
30.01.2006
Þótt hér á Íslandi sé nú í janúarlok vorveður og hlýindi er aðra sögu að segja af meginlandi Evrópu og Norðurlöndunum ekki síður. Þar er ískuldi og snjóalög, meira að segja í Danmörku, sem hefur haft þau áhrif á danska bíleigendur að þeir hafa í vaxandi mæli skipt yfir á vetrardekk. Danir hafa hingað til verið lítið fyrir að skipta og ekið á sumardekkjunum allan veturinn, enda hafa veturnir undanfarin mörg ár verið mildir.
Samtök hjólbarðaframleiðenda og –sala í Danmörku birtu um helgina könnun meðal bifreiðaeigenda um hjólbarðanotkun. Hún leiðir í ljós að miklu fleiri en áður hafa nú skipt yfir á vetrardekk. Hún leiðir einnig í ljós að þeir sem eiga nýlega bíla í stærri kantinum skipta miklu frekar yfir á vetrardekk en þeir sem aka á litlum og gömlum bílum. Sömuleiðis treysta borgarbúar meir á það en íbúar dreifbýlisins að vegir og götur séu ruddar og þeir komist leiðar sinnar. Borgarbúarnir skipta því siður yfir á vetrardekk en dreifbýlingarnir.
Bíleigendur sem búa í Tåstrup, útborg Kaupmannahafnar virðast samkvæmt könnuninni vera sérlega kærulausir því einungis tæpur einn þriðji þeirra ekur á vetrardekkjum um þessar mundir. Til samanburðar eru næstum 85 prósent bíleigenda í Randers á Jótlandi á vetrardekkjum. Danir eru almennt minna fyrir að skipta yfir á vetrardekk en aðrir Norðurlandabúar því talið er að yfir 90 prósent þeirra setji vetrardekk undir bíla sína þegar vetur nálgast.