Við eigum Q, ekki Audi
30.03.2005
Hvor á bókstafinn Q? Að ofan er Nissan Infiniti Q45. Að neðan er hinn nýi Adi Q7.
Nissan í Japan hefur stefnt Audi fyrir rétt í Michigan í Bandaríkjunum fyrir að ræna vörumerki í sinni eigu. Um er að ræða bókstafinn Q sem Nissan hefur notað sem gerðarauðkenni á lúxusbílnum Nissan Infiniti allt frá árinu 1989.
Audi hyggst nota gerðarauðkennið Q7 á nýjan stóran jeppa sem framleiddur verður í Bandaríkjunum og á að koma á markað 2006. Jafnframt hefur Audi boðað komu minni jeppa sem á að auðkennast sem Q5. Nissan gamli er hreint ekki sáttur við þessar fyrirætlanir og bendir á að gerðarheitið Q45 (Infiniti) sé þegar í notkun og krefst þess að Audi hætti þegar í stað að kalla jeppa sinn Q og greiði skaðabætur og málskostnað. Bókstafurinn Q hafi verið notaður allt frá árinu 1989 þegar Infiniti kom fyrst fram á sjónarsviðið. Þá hafi Nissan þinglýst slagorðunum „The new Q“ sem vörumerki árið 1993 þegar ný gerð Infiniti, Q45 var kynnt fyrst. Á síðasta ári seldust 131 þúsund Infiniti bílar í Bandaríkjunum og 78 þúsund Audi bílar.