Við erum tilbúnir í næstu útlitsbyltingu

The image “http://www.fib.is/myndir/BMW7series.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
BMW 7 2005.
Chris Bangle er hönnunarstjóri hjá BMW. Hann segir við breska bílatímaritið Autoweek að nýa gerðin af BMW 3 línunni verði lokapunkturinn á þeirri hönnunar- og útlitsstefnu sem BMW hefur fylgt undanfarin ár. „Við erum nú að undirbúa næstu byltingu,“ segir Bangle.
Í viðtalinu segir Bangle að með hönnunin á nýju 3-línunni verði lokapunktur þeirrar byltingar sem hófst þegar núverandi gerð 7-línunnar kom fyrst fram á sjónarsviðið. Meginlínur þess útlits voru síðan yfirfærðar á Z4 sportbílinn, nýju 5-línuna, 6-línuna, X3 jeppann og litla bílinn; 1-línuna. Nú sé að hefjast nýtt hönnunarskeið hjá BMW og menn byrji á auðu blaði í teikniblokkunum, menn láti það sem áður hafi verið gert ekki trufla sig.
Chris Bangle er umdeildur hönnuður og mörgum íhaldssömum BMW aðdáandanum hryllir við hugsanlegu hönnunarflippi hins hugmyndaríka yfirhönnuðar og vitna þá til nýju 7-línunnar sem þeim finnst lítt fögur. Autoweek spurði hann hvers vegna hann sjálfur teldi að hann sé sakaður um svik við góðar og grónar BMW hefðir: „Ég hef enga hugmynd um það og kæri mig kollóttan. Ég hef hannað bíla í yfir 20 ár og þekki innviði margra bílaframleiðslufyrirtækja. Ég fullyrði að stjórn BMW tekur miklu virkari þátt í hönnunarferlinu en nokkur önnur stjórn bílaframleiðslufyrirtækis gerir. Það er því ekki ég sem er að söðla um hjá BMW um á mitt eindæmi.“
Aðspurður um hönnunina á 7-línunni og deildar meiningar um útlit bílsins segir Bangle að markmiðið hafi verið að hanna bíl sem höfðaði til annarra en sextugra karla og eldri sem keyra sjálfir nánast aldrei heldur sitja í aftursætinu. Bíllinn átti að höfða líka til 15-20 árum yngri manna sem hafa tilfinningu fyrir sportlegum og öruggum aksturseiginleikum.