Viðgerðir tjónabílar – kötturinn í sekknum
Evrópsk hagsmunafélög bifreiðaeigenda – systurfélög FÍB hafa áhyggjur tjónabílum, ekki síst af innstreymi viðgerðra tjónabíla frá Bandaríkjunum. Þetta eru bílar sem bandarísk tryggingafélög og umferðaryfirvöld hafa afskrifað sem óviðgerðarhæfa eftir hverskonar tjón, m.a. umferðartjón og hamfaraflóð. Bílarnir eru því seldir á uppboðum til niðurrifs og/eða eyðingar en ýmsir Evrópubúar sjá sér leik á borði að kaupa þá, flytja heim, lagfæra og endurselja síðan.
Í tímans rás hafa Íslendingar keypt tjónabíla á þessum uppboðum og flutt til landsins, gert við þá og selt aftur. Auðvitað hafa einhverjir gert ágæt kaup í viðgerðum tjónabilum en tilfellin um hið gagnstæða eru fleiri og fjöldamörgum sögum fer af vandræðum kaupenda bíla sem keyptu köttinn í sekknum.
Hér á landi hafa tryggingafélög verið umsvifamikil í viðskiptum með tjónabíla sem þau hafa leyst til sín vegna þess að ekki svaraði kostnaði að gera við þá. Þessa bíla hafa félögin selt á uppboðum og í útboðum, oftar en ekki án tjónamerkingar þótt skemmdir hafi verið ærnar. Þannig hefur verið komist hjá því að taka viðgerðir á þeim sérstaklega út og votta. Það litla sem síðan kemur fram í bifreiðaskrá bendir til óverulegs tjóns. Sjálf viðgerðin hefur svo farið fram einhversstaðar í bílskúrum og verið unnin af ófaglærðum aðilum við ófullkomnar aðstæður og oftar en ekki kemur í ljós síðar að hún er alls ófullnægjandi og nýr eigandi situr uppi með svarta-pétur.
FÍB hefur margsinnis haft afskipti af málum af þessum toga og ítrekað krafist bættrar reglufestu og betri neytendaverndar í málum af þessu tagi og tekist að þoka þeim til betri vegar þótt enn sé langt í land með að ástandið geti talist viðunandi.
Tímaritið Motor, félagsrit hins sænska systurfélags FÍB, hefur tekið saman yfirlit yfir innflutning og feril dæmigerðs bandarísks tjónabíls til Svíþjóðar og til Evrópu frá tjóni og þar til hann er kominn á skrá í Svíþjóð. Ferillinn er eftirfarandi:
1. AFSKRÁNING
Bíll sem skemmst hefur verulega í árekstri eða í flóði eða einhverju álíka er úrskurðaður stórskemmdur eða ónýtur. Nauðsynleg viðgerð er metin of dýr (Salvage Title), eða jafnvel óframkvæmanleg (Total Loss Vehicle).
2. UPPBOÐ
Bíllinn er seldur til niðurrifs á sérstöku uppboði í Bandaríkjunum fyrir altjónaða bíla.
– Afskráðir bílar sem keyptir eru á þessum uppboðum á 100 þús. - 600 þús. ísl. kr. seljast í Svíþjóð og öðrum Evrópuríkjum fyrir a.m.k. þrefalt uppboðsverðið og stundum miklu meir, segir Stefan Brala sérfræðingur í bifreiðatryggingum hjá tryggingafélaginu Trygg-Hansa við Motor.
3. VIÐGERÐ
Algengast er að þessir tjónabílar séu fluttir frá Bandaríkjunum til Litháen sem sérfræðingar telja að sé orðið einskonar Evrópumiðstöð viðskipta með skemmda og af þeim sökum afskráða bíla. Gert er við bílana á sérstökum sérhæfðum verkstæðum.
4. STOLNIR VARAHLUTIR
Þeir varahlutir sem notaðir eru við viðgerðina á hinum dæmigerða tjónabíl í Litháen eru stolnir – oftast teknir úr stolnum bílum hér og þar í Evrópu. Í Svíþjóð er bílavarahlutum stolið fyrir andvirði sjö til níu milljarða ísl. króna á hverju ári. Hluti þýfisins er flutt til Litháen þar sem hlutirnir eru settir í tjónabíla að sögn sænsks rannsóknalögreglumanns. Varahlutirnir sem stolið er í Svíþjóð eru einkum í dýrar bifreiðategundir eins og BMW, Audi og Merecedes Benz.
5. AÐ VIÐGERÐ LOKINNI
Að viðgerð lokinni – sem oft er að meira og minna leyti rétt framkvæmd – eru bílarnir fluttir til Þýskalands.
6. SKIPT UM EIGENDUR
Sænskur bílasali kaupir viðgerðan bílinn í Þýskalandi og auglýsir hann síðan á Internetinu í Svíþjóð. Árið 2013 leiddi rannsókn sænskrar rannsóknastofnunar í ljós að af 768 bandarískum tjónabílum (af árgerðum 2007 og yngri) sem fluttir höfðu verið beint inn til Svíþóðar árið 2012 reyndust 21 prósent eiga sér bandaríska tjónaforsögu. En af 269 samskonar bílum sem fluttir höfðu verið inn til Svíþjóðar frá Litháen reyndust 61 prósent eiga sér bandaríska tjónaferilssögu.
Söluaðferðirnar
Í auglýsingum lofa seljendurnir bílana í hástert og tilgreina gjarnan hverskonar áklæði er á sætum, að sætin séu ekta sportsæti og í bílnum sé loftkæling og fleira slíkt. Ekkert er hins vegar nefnt um hvort bíllinn hafi skemmst eða lent í vatni, né heldur að hann hafi verið afskráður sem tjónabíll í Bandaríkjunum áður en hann kom til Svíþjóðar. Ekki þarf þó að ,,Gúggla” lengi til að finna auðveldlega fjölda dæma um bandaríska tjónabíla frá Bandaríkjunum sem komnir eru til Svíþjóðar, ýmist beint eða með viðkomu í Litháen eða öðru Evrópulandi. Margir þeirra hafa verið dæmdir ónýtir af bandarískum tryggingafélögum eða yfirvöldum en í stað þess að eyða þeim voru þeir seldir til Evrópu.
Í Evrópu getur það verið talsvert snúið af ýmsum ástæðum, m.a. persónuverndarástæðum að afla sér nákvæmra upplýsinga um feril notaðra bíla, hvort eða hversu alvarlegu tjóni bíll hafi orðið fyrir. Upplýsingaöflun af þessu tagi er hins vegar auðveld í Bandaríkjunum, t.d. hjá bílaupplýsingaveitunni Carfax.
Tímaritið Motor hefur kannað hjá Carfax feril nokkurra bíla frá Bandaríkjunum sem boðnir hafa verið til sölu í Svíþjóð. Niðurstöður leitarinnar voru flestar verulega ógnvekjandi. Dæmi um það er Ford Mustang árg. 2013 sem auglýstur var á rúmlega 4,7 milljónir ísl. kr. Hann var sagður ekinn 13 þús. kílómetra. Ekkert stóð um það í auglýsingunni að þann 25. febrúar 2016 fékk bíllinn tjónamerkinguna ,,Salvage title” sem þýðir að áætlaður tjónsviðgerðarkostnaður á honum var a.m.k. 75 prósent af gangverði hans. Skömu síðar var þessi bíll seldur úr landi til Litháen og þann 28. júlí 2016 var bíllinn skráður í Svíþjóð.
Annað dæmi er um Dodge Challenger árgerð 2013 sem auglýstur var á tæpar fjórar milljónir ísl kr. Hann er í auglýsingu sænska bílasalans sagður ekinn 77 þús. km og sé með loftkælingu. Ekkert er hinsvegar nefnt að í júní 2015 lenti hann í árekstri í Bandaríkjunum og var afskráður ónýtur með titlinum ,,Total loss vehicle.” fáum vikum síðar var hann seldur til Klaipeda í Litháen og þaðan til Svíþjóðar þar sem hann var skráður.
-SÁ