Viðhaldsaðgerðir á Gullinbrú í Grafarvogi
Viðhaldsaðgerðir sem nú fara fram á Gullinbrú eru hluti af samningi Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um skilaveg 419 sem ljúka á við á þessu ári . Verktakar sem vinna að þessum framkvæmdum eru Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar í samstarfi við Freyssnet.
Nauðsynlegt að draga úr hraða
Aðgerðir á Gullinbrú hófust 24. júní og áætlað er að þeim verði lokið 16. júlí næstkomandi. Á meðan aðgerðum stendur er nauðsynlegt að draga úr umferðarhraða og þrengja að umferð um eina akrein í báðar áttir framhjá framkvæmdasvæðinu.
Ekki er gert ráð fyrir að loka þurfi fyrir umferð ökutækja né gangandi og hjólandi vegfarendur um brýrnar á framkvæmdatíma.
Framkvæmdirnar eru aðallega vegna útskipta á þennsluraufum brúarinnar sem skipta þarf um þvert yfir báðar brýrnar. Einnig er verið að fjarlægja klæðningu sem er ónýt og var farin að skapa hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur undir brúnni.
Einnig þarf að skipta um hluta af vegriði sem skemmdist í árekstri nýverið. Þetta eru frekar flóknar aðgerðir sem er helsta ástæða fyrir löngum framkvæmdatíma.