Viðlíka samdráttartölur í umferðinni aldrei sést áður
Umferðin í mars á höfuðborgarsvæðinu dróst saman um 21 prósent og aldrei hafa viðlíka samdráttartölur sést. Eftir efnahagshrunið 2008 dróst umferðin mest saman um 3,5 prósent á milli mánaða í mars og mesti mældi samdráttur milli mánaða hingað til nemur 9,1 prósenti í apríl 2009. 35 þúsund færri ökutæki fóru um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu.
Milli mánaða 2019 og 2020
Það er að bera í bakkafullan lækinn að tala um fordæmalausa tíma nú um stundir en þessir tímar eru það svo sannarlega. Eins og áður hefur komið fram í fréttum Vegagerðarinnar af umferð á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið hrun í umferðinni yfir 3 lykilmælisnið á svæðinu. Nú þegar marsmánuður er liðinn mælist samdrátturinn tæplega 21%, miðað við sama mánuð á síðasta ári.
Áður hafði mesti samdráttur milli mars mánuða mælst milli áranna 2010 og 2011, í kreppunni miklu, eða sem nam 3,5% og stærsti einstaki samdráttur hingað til varð á milli apríl mánuða 2008 og 2009 eða alls 9,1% samdráttur. Þannig að aldrei áður hafa sést tveggjastafa tölur í samdrætti á höfuðborgarsvæðinu. Þessi samdráttur er hreinlega af allt annarri stærðargráðu en áður hefur sést og því ná varla yfir þetta nægilega sterk lýsingarorð.
Mest dregst umferð saman um Hafnarfjarðarveg eða um rúmlega 27% og minnst um Vesturlandsveg eða um tæp 18%. Áður hafði Vegagerðin lýst því að ekki hafi fundist haldbærar skýringar á því hvers vegna Hafnarfjarðarvegurinn dregst hlutfallslega mest saman. Hins vegar, þegar þessi samantekt hófst þá var sniðið svipað að stærð og sniðið á Reykjanesbraut og sniðið um Vesturlandsveg minnst en á síðasta ári var sniðið um Hafnarfjarðarveg orðið lang minnst. Þal hefur umferð um umrætt snið ekki vaxið að sama krafti og um hin tvo sniðin, hvað sem veldur því.
Meðal sólarhringsumferðin um mælisniðin 3 var tæpum 35 þús. ökutækjum minni en í sama mánuði á síðasta ári og jafnast á við meðalumferðina í mars 2014, eða fyrir 6 árum síðan.
Uppsafnað frá áramótum
Þriðja mánuðinn í röð mælist samdráttur í umferð á höfuðborgarsvæðinu og með þessum mikla samdrætti í mars þá hefur umferðin nú dregist saman um tæp 8% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Aldrei áður hefur Vegagerðin mælt þvílíkan samdrátt miðað við árstíma og er hann rúmlega tvöfalt meiri en áður hefur sést nokkurn tíma, síðan þessi samantekt hófst.
Umferð eftir vikudögum
Eins og gera mætti ráð fyrir þá dregst umferð mikið saman í öllum vikudögum en hlutfallslega mest um helgar og mest á laugardögum eða um tæp 30% en minnst dregst umferð saman á mánudögum eða um rétt rúmlega 16%. Mest var ekið á fimmtudögum en minnst á sunnudögum.