Viðræður í loft upp
Greint var frá því fyrir stundu á blaðamannafundi að viðræðum milli ríkisins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun sjóðanna á stórframkvæmdum við vegina inn á og út af höfuðborgarsvæðinu og göng undir Vaðlaheiði hafi verið slitið í gærkvöldi. Kristján L. Möller fyrrverandi samönguráðherra hefur leitt þessar viðræður við lífeyrissjóðina og verið eindreginn talsmaður svokallaðra vegafélaga og vegatollainnheimtu.
Það hefur nefnilega verið eins konar forsenda í þessum viðræðum Kristjáns við lífeyrissjóðina að stofnuð verði opinber hlutafélög eða vegahlutafélög, eins og fyrirbærið var nefnt, sem hefðu þessar vegaframkvæmdir á sinni könnu og byrji síðan að innheimta vegatolla eftir fimm ár, þegar vegirnir verða tilbúnir og þá verði jafnframt byrjað að endurgreiða lán lífeyrissjóðanna. FÍB hefur gert alvarlegar athugasemdir við þessar fyrirætlanir sbr. þessa frétt á fréttavef FÍB.
FÍB hlýtur að meta það svo að þessar hugmyndir um vegafélögin og vegatollainnheimtu séu nú úr sögunni, botninn sé einfaldlega dottinn úr þeim, sem er fagnaðarefni. Eigi að fjármagna framkvæmdir m.a. með útboði á ríkisskuldabréfum er eðlilegt að framkvæmdirnar séu á hefðbundnum grunni, sem ríkisframtak í samgöngumálum. Vegagerðin, en ekki einhver hlutafélög, verði veghaldari fyrir hönd landsmanna, eigenda þjóðveganna, og annist alla hönnun, útboð verkþátta og eftirlit.