Vilja bjarga Saab-safninu
Saab hjarir enn því að starfsfólkið lagði ekki inn kröfu um gjaldþrot sl. föstudag eins og jafnvel var búist við. Starfsfólkið hafði sl. föstudag verið nógu lengi launalaust til að geta lögum samkvæmt krafist gjaldþrots. Um leið og slík krafa kemur fram, greiðir ríkisábyrgðarsjóður launa út ógreidd laun starfsfólks.
En hrun er ennþá yfirvofandi og nú er borgarstjórnin ásamt hópi heimafólks í Trollhättan, heimaborg Saab, byrjuð að vinna að því að kaupa Saab-safnið út úr búinu til þess að forða því að það fari á alþjóðlegt uppboð og dýrgripirnir tvístrist út um tvist og bast, fari Saab í gjaldþrotameðferð. Borgarstjórinn í Trollhättan segir við dagblaðið Dagens Industri að heimamenn kæri sig ekki um að glæst saga Saab bíla-framleiðslu glatist, fari allt á versta veg. – Við viljum leysa safnið undan forsjá verksmiðjunnar t.d. með því að kaupa það. Það væri harmleikur ef safnmunirnir tvístruðust út og suður, segir borgarstjórinn.
Hugmyndin er sú að kaupa safngripina á einhverskonar markaðsvirði fornbíla. Bílarnir í safninu eru um 100 talsins og mælt á þann mælikvarða teljast bílarnir ekki sérlega dýrir. Heildarverðmæti þeirra er metið á rúmar 360 milljónir ísl. kr. Verðmætasti safngripurinn er talinn vera frumgerð fyrsta Saab bílsins frá 1947, svokallaður Ursaab 92001 eða Frumsaab. Frumsaabinn var fyrirrennari Saab 92 sem kom á markað 1948. Söluverðmæti Frumsaabsins er talið liggja á milli 5,5- 9 milljónir ísl. kr.