Vilja nálgast raunveruleikann
Margir kaupendur nýrra bíla eru fljótir að rekast á það sér til lítillar gleði að uppgefnar tölur um eldsneytiseyðslu samkvæmt staðalbundinni eyðslumælingu ESB standast enganveginn raunverulega eyðslu bílsins í daglegri notkun. Þess vegna vilja þingmenn á Evrópuþinginu nú breyta mælingunni þannig að eyðslutölurnar færist nær raunveruleikanum. Nýs mælingastaðals er þó vart að vænta fyrr en í fyrsta lagi árið 2020.
Eyðslumælingarstaðalinn er í stuttu máli þannig að allir nýir bílar eru mældir á nákvæmlega sama hátt. Bílarnir eru „keyrðir“ á keflum sem stjórnað er af tölvu. Tölvan hefur verið forrituð þannig að til verður eftirlíking af akstursferli þéttbýlisaksturs, vega- og hraðbrautaaksturs og blandaðs aksturs. Hitastig er einnig staðlað og forritað í stjórntölvuna. Út úr þessu koma síðan eyðslutölur sem eru eins konar vísitölur. Gallinn er bara sá að þessar vísitölur benda yfirleitt til lægri eyðslu en raunin er í almennri notkun. Þá er eyðsla bíla misjöfn eftir notkunarmynstri og eftir lofthitastigi og jafnvel loftrakastigi. Þannig eyða bílar sem mest eru notaðir á stuttum vegalengdum, verulega meira á hvern ekinn kílómetra en bílar sem notaðir eru til lengri ökuferða. Þá er eyðslan miklu meiri þegar bíll er kaldræstur aftur og aftur og nær sjaldan fullum vinnsluhita. Þá eyða bílar almennt meira eldsneyti þar sem kuldi er viðvarandi en þar sem hlýindi ríkja meira og minna árið um kring.
Breytingar á hinum evrópustaðlaða eyðslumælingarhring var á dagskrá á fundi æðstu manna evrópska bílaiðnaðarins sem haldinn var í vikunni að frumkvæði ESB. Hópur þessi nefnist CARS 21 High Level Group og í honum eru meðal annarra Stephen Odell frá Ford, Dieter Zetsche frá Daimler AG og Sergio Marchionne frá Fiat/Chrysler en sá síðastnefndi er þessa stundina formaður sambands evrópskra bílaframleiðenda.
Bílamennirnir samþykktu að þróaður skyldi nýr staðlaður eyðslumælingarhringur sem sýndi eyðslutölur sem nær væru daglegum raunveruleika flestra. Þá skyldi jafnframt þróa betri mælitækni sem og tækni til að hemja sem mest útblástur frá bílvélunum og stuðla þannig að enn betri loftgæðum, eins og það er orðað.
Sem fyrr segir eru hinar opinberu og uppgefnu eyðslutölur nýrra bíla fyrst og fremst vísitölur. Það hefur verið gagnrýnt hversu langt þær oft eru undir raunverulekanum í daglegri notkun, eða sem nemur 20-30 prósentum. Hins vegar skiptir aksturslag miklu máli í þessu samhengi eins og raunar nýafstaðin sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu sýndi glöggt. Þar fóru nefnilega furðu margir keppenda keppnishringinn á 20-30 og sumir reyndar allt að 50 prósent undir uppgefinni eyðslu bílanna.