Vilja rækta bílaeldsneyti
Afgreiðsludæla með lífrænu bílaeldsneyti.
Danski Evrópukommissarinn Mariann Fischer Boel og hinn franski starfsbróðir hennar Louis Michel hafa lagt fyrir Evrópuþingið í Brussel áætlun sem beinist að því að einstök lönd innan ríkjasambandsins auki verulega framleiðslu á lífrænu eldsneyti. Tilefni áætlunarinnar er eins og nærri má geta geysihátt heimsmarkaðsverð á hráolíu og ótraust afgreiðsla Rússa á jarðgasi til V. Evrópulanda.
Í áætlun kommissaranna er mælst til þess að ríkisstjórnir Evrópusambandslandanna ýti undir framleiðslu á lífrænu eldsneyti með því að breyta skattareglum sínum slíkri framleiðslu í hag og að stjórnvöld ýti jafnframt undir það að offramleiðsla á korni og sykri í heiminum verði nýtt sem hráefni til eldsneytisframleiðslu.
Svipað er að gerast í Bandaríkjunum og ríkisstjórn Georg W. Bush hefur tilkynnt að nú skuli verulega herða á þróun og framleiðslu á etanólblönduðu bensíni á bíla, svokölluðu E85 eða Flexifuel, eins og það kallast líka. Bush-stjórnin hefur heitið því að leggja til málefnisins um tíu milljarða ísl. króna. Það er þrefalt meira en stjórnin hafði áður ætlað til þessara mála.