Víravegrið bjarga mótorhjólamönnum
24.01.2007
Gagnstætt því sem mótorhjólamenn bæði hér á landi og víðar í Evrópu og mörg samtök þeirra halda fram, þá draga miðjuvegrið sem aðskilja umferð til gagnstæðra átta úr áhættu mótorhjólamanna um 30% til 50%. Þetta er niðurstaða ítrekaðra rannsókna sænsku vegamálastofnunarinnar VTI. Sú trú margra mótorhjólamanna að miðjuvegrið, - víravegrið eins og hér á landi þekkjast í Svínahrauni, séu lífshættuleg mótorhjólafólki og auki slysahættu þess, á ekki við nein rök að styðjast segir Arne Carlsson yfirmaður slysarannsókna hjá VTI. – Það er ekki hægt að finna neitt sem styður staðhæfingar um að vegriðin auki á lífshættu mótorhjólafólks segir Arne Carlsson í samtali við Svenska Dagbladet nýlega.
Svíar hófu árið 1998 markvisst átak í því að aðskilja umferð á þjóðvegum til gagnstæðra átta. Við síðustu áramót var kominn miðjudeilir á alls 1.500 kílómetra og það hefur stórlega dregið úr slysahættu, ekki bara fyrir mótorhjólafólk, heldur allar tegundir umferðar um þessa vegi.
-Almenn dauðaslysahætta þessum vegum hefur minnkað um 80% og hætta á meiðslum hefur um 55% segir í frétt blaðsins. Meginástæða þessa er sú að um leið og víravegriðin komu á vegina voru framaná-árekstrar að mestu úr sögunni. Einu framanáárekstrarnir sem síðan hafa orðið hafa verið vegna drukkinna ökumanna í langflestum tilfellum, sem álpuðust inn á rangan vegarhelming,- segir Arne Carlsson.
Samtök sænsks mótorhjólafólks, SMC gera athugasemdir við víravegriðin og formaður þeirra, Jesper Christensen telur að miðjuskipting með víravegriði sé ekki alfarið góð lausn fyrir mótorhjólafólk þótt hún sé illskárri en miðjuskipting með hefðbundnum stálvegriðum. – Víravegriðin eru vissulega ágæt að því leyti að þau hafa útrýmt framaná-árekstrunum. En vandamálið er það að þau eru ekki gerð með það fyrir augum að vernda okkur hina óvörðu í umferðinni. Stólparnir sem bera vírana uppi eru með hvössum brúnum til beggja hliða. Ef við rekumst á stólpana eigum við á hættu að stórslasast,- segir hann. Jesper Christensen telur þó víravegrið illskárri kost sem miðjudeili en hefðbundin stálvegrið. Stálvegrið í stað víravegriða myndu líklegast stórauka slysahættuna fyrir mótorhjólafólkið að hans mati.
Á árinu 2006 létust sex mótorhjólamenn í Svíþjóð í árekstrum við miðjudeila – ekki bara víravegrið heldur hverskonar vegrið. Jesper Christensen telur að slíkum slysum eigi eftir að fjölga í takti við fjölgun miðjudeila á vegum og vaxandi fjölda mótorhjólafólks í umferðinni. Hægt er að hlaða niður frumskýrslu VTI um þetta mál. Skýrslan er á PDF-formi.