Virkar málmplatan ekki?
Þær fregnir berast nú frá Bandaríkjunum í hinu risastóra innköllunarmáli Toyota að dæmi séu um að bílar sem hafi verið innkallaðir og viðgerðir vegna bensíngjafarinnar sem átti til að festast í botni, hafi verið að fara í botngjöf fyrirvaralaust án þess að ökumaður snerti bensínfetilinn. Sé þetta rétt er ljóst að þetta erfiða mál alltsaman á enn eftir að fjölga gráu hárunum á höfðum Toyotastjóranna.
Samkvæmt fréttunum hefur um tugur manns kvartað undan því við NHTSA, bandarísku umferðaröryggisstofnunina að viðgerðir bílar hafi skyndilega gefið sér rækilega inn án þess að ökumenn hafi stigið á bensíngjöfina. NHTSA mun hafa rætt við þessa ökumenn og reynt að finna út úr því hvort einhverskonar sameiginlegur aðdragandi og einkenni séu finnanleg í þessari meintu atburðarás og eins hvað það er sem gæti hafa orsakað þetta. NHTSA hefur jafnframt auglýst eftir frásögnum fleiri Toyotaeigenda af svona atburðum.
Niðurstaða Toyota var á sínum tíma sú að ástæður fyrir skyndilegri óviðráðanlegri inngjöf hefði verið ýmist þær að bensínfetillinn hafi orðið fastur undir gólfmottu eða að bensínfetillinn hefði aflagast og stirðnað af þeim sökum og ekki gengið til baka og þar með slegið af inngjöfinni. Viðgerðin fólst í því að festa litla málmplötu við bensínfetilinn. Platan átti að koma í veg fyrir að fetillinn aflagaðist og vandamálið átti þar með að vera úr sögunni.
Sé það hins vegar raunin að vandamálið sé ennþá til staðar virðist sem að um einhverskonar hugbúnaðarvanda sé að ræða í stjórntölvu sem sendi villuboð um ótímabæra inngjöf. Hugbúnaðarsérfræðingurinn og annar stofnenda Apple; Steve Wozniak, hefur haldið því fram að um sé að ræða hugbúnaðarvanda hjá Toyota en ekki galla í „vélbúnaði.“ Því hafa talsmenn Toyota í Bandaríkjunum hins vegar afneitað.
En hvor ástæðan er, þá segir NHTSA að um það bil 2600 slys af völdum bilunarinnar hafi orðið í Bandaríkjunum þar sem Toyota og Lexus bílar áttu í hlut. Í þessum slysum hafi 55 manns látið lífið.