Virkar samgöngur – betri hreyfing
Þegar horft er til heildarfjölda þeirra sem slösuðust alvarlega eða létust í umferðinni í fyrra hefur „óvörðum vegfarendum“ fjölgað mjög mikið. Óvarðir vegfarendur er samheiti yfir þá vegfarendur sem eru gangandi og hjólandi á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafhlaupahjólum.
Af heildarfjölda látinna og alvarlega slasaðra nam fjöldi þeirra 42% en það hlutfall hefur lengst af verið um 30%. Þessa aukningu má að stærstum eða öllum hluta rekja til mikillar fjölgunar slysa á rafhlaupahjólum.
Föstudaginn 23. september verður haldið Umferðarþing í húsnæði Gamla bíós í Reykjavík og er yfirskrift þess „Virkar samgöngur – betri hreyfing“. Þingið er að þessu sinni tileinkað umfjöllun og umræðu um öryggi gangandi og hjólandi.
Á þinginu verður m.a. fjallað um leiðir, hugmyndir og úrræði til eflingar öryggis þessara ferðamáta. Fjallað verður um slysaþróun, viðbrögð nágrannaþjóða við nýjungum eins og rafhlaupahjólum og reglusetningar í því sambandi. Kynntar verða tillögur starfshóps innviðaráðherra um setningu reglna um svonefnd smáfarartækja. Fjallað verður um Ísland sem hjólaland, áhrif fyrirhugaðrar Borgarlínu á þessa samgöngumáta og samstarfsverkefni sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar um stofnhjólanet höfuðborgarsvæðisins.
Kynntar verða niðurstöður rannsóknar á hjálmanotkun á fjölförnum stígum höfuðborgarsvæðisins og leitað verður svara við spurningunni hver eru möguleg og væntanleg farartæki framtíðarinnar? Að lokum má geta áhugaverðar umfjöllunar um þær áskoranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir sem virkir vegfarendur.
Dagskrá þingsins má sjá hér og hægt er að skrá sig á vefslóðinni: samgongustofa.is/umferdarthing