Visthæfum bílum lagt ókeypis í Reykjavík
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfisnefndar Reykjavíkur.
„Við viljum koma til móts við þá sem velja visthæfar bifreiðar í Reykjavík,“ sagði Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi þegar hann stillti fyrstu bílastæðaskífuna í borginni. Bílastæðaskífurnar eru til nota fyrir þá ökumenn sem aka svonefndum visthæfum bílum. Visthæfir bílar eru þeir sem eyða 4,5-5 lítrum af eldsneyti á hundraðið og gefa frá sér minna en 120 grömm af CO2 á hvern ekinn kílómetra samkvæmt evrópskri staðalmælingu.
Frá og með gærdeginum, 2. ágúst mega ökumenn visthæfra bíla leggja þeim ókeypis í gjaldskyld bílastæði í Reykjavík í allt að 90 mínútur í senn. Fyrrnefnd bílastæðaskífa sem höfð er í bílunum er stillt á þann tíma sem bílnum er lagt í stæðið og geta þá stöðumælaverðir borgarinnar séð á henni hvenær hinum visthæfa bíl var lagt í stæðið. Skífan fæst hjá bílaumboðunum sem fylgihlutur með visthæfum bílum .
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri og Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar komu keyrandi á visthæfri bifreið á blaðamannafund þar sem fyrsta bílastæðaskífan fyrir visthæfa bíla var tekin í notkun.. „Visthæfar bifreiðar eru hljóðlátar og valda minni mengun en aðrar bifreiðar og því viljum við hjá Reykjavíkurborg styðja slík farartæki,“ sagði borgarstjóri við þetta tækifæri.
Sú skilgreining sem Reykjavíkurborg hefur á því hvað teljist visthæfur bíll er þessi:
Bensínbílar: Eyðsla í blönduðum akstri er 5,0L/100km eða minna og CO2 útblástur að hámarki 120 g/km.
Díselbílar: Eyðsla í blönduðum akstri er 4,5L/100km eða minna og CO2 útblástur að hámarki 120 g/km.
Aðrir orkugjafar: Tvíorkubílar (hybrid) sem nota t.d. metan/bensín eða etanól/bensín og eyðsla fer ekki yfir 5,0L/100km í blönduðum akstri og CO2 útblástur að hámarki 120 g/km.
Knútur G. Hauksson forstjóri Heklu, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri, Úlfar Steindórsson forstjóri Toyota, Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi og Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar.