Vistvænir bílar auka hlutdeild sína
Í september voru alls 1.074 fólks- og sendibílar nýskráðir hér á landi, 21,4 prósentum færri en í sama mánuði 2017 þegar nýskráðir voru 1.366 bílar. Sé aðeins litið til bílakaupa einstaklinga og fyrirtækja (án bílaleiga) í mánuðinum var samdrátturinn meiri eða 26,1% miðað við september 2017. Frá áramótum hafa alls 17.502 fólks- og sendibílar verið nýskráðir og er það 11,9% samdráttur miðað við fyrstu níu mánuði síðasta árs þegar alls 19.869 bílar höfðu verið nýskráðir.
Vistvænir bílar auka hlutdeild sína jafnt og þétt. Þegar sölutölur einstakra umboða í september er skoðaðar kemur í ljós að hjá BL voru 58 rafknúnir fólksbílar nýskráðir, fimmtíu rafbílar og átta tengiltvinnbílar.
Af rafbílum voru 36 Nissan, 7 Renault, 4 Hyundai og 3 BMW. Af tengiltvinnbílum voru 6 frá Mini og einn BMW og einn Hyundai, alls átta bílar. Það sem af er árinu (jan-sep) hafa 332 hreinir rafbílar af merkjum BL verið nýskráðir og er hlutdeild fyrirtækisins á rafbílamarkaðnum 68%. Þar af var hún 84,7% í september.
Ríflega 64% allra nýrra bíla sem Hekla hefur selt til einstaklinga það sem af er ári hafa verið vistvænir. Þetta er áhugaverð þróun sem sýnir gríðarlegan áhuga neytenda á vistvænum möguleikum þegar kemur að bílakaupum.
Þegar litið er á sölu vistvænna bíla frá upphafi árs til dagsins í dag þá ber Hekla höfuð og herðar yfir önnuð umboð með 56,09% af heildarmarkaði en það umboð sem næst kemur er með 18,63%. Heklumerki eiga 61.5% markaðshlutdeildar af nýskráðum tengiltvinnbílum á árinu og mest seldi tengiltvinnbíllinn á Íslandi er Mitsubishi Outlander PHEV en tæp 39% allra seldra bíla sem ganga fyrir bæði rafmagni og bensíni eru af þeirri tegund.