Volkswagen ásakað um að komast hjá því að greiða mengunarskatt
Umhverfissamtökin, Greenpeace, halda því fram að ein af að hverjum fjórum ID.3 vélum þýska bílaframleiðandans Volkswagen sem seldar voru á síðasta ári hafi verið keyptar af fyrirtækinu sjálfu. Tilgangurinn einn var að komast hjá því að greiða mengunarskatt og Evrópusambandinu sektir fyrir losun koltvísýrings, CO₂. Það er sænski miðillinn automotorsport sem fjallar um málið.
Greenpeace staðhæfa að Volkswagen séu sjálfir kaupendur að allt að 20% allra rafbíla og tengilbíla sem fyrirtækið seldi í fyrra. Fullyrt er að að tala ID.3 sé enn hærra, jafnvel 25%. Ekki þykir óeðlilegt að bílaframleiðandinn sé með einhvern ákveðinn fjölda bíla á eigin vegum. Í þeim tilfellum er átt við kynningarbíla, bíla í prófunum ýmis konar, og bíla sem fjölmiðlar eru með í reynsluakstri svo eitthvað sé nefnt.
Forsvarsmenn Volkswagen hafa ekki viljað svara þessum fullyrðingum og ekki heldur um þær tölur sem nefndar hafa verið að því fram kemur í þýskum fjölmiðlum. Þess má geta að ID.3 rafbíllinn frá Volkswagen kom fyrst hingað til lands í september á síðasta ári og seinkaði komu hans vegna heimsfaraldursins.
Volkswagen bílaframleiðandinn var uppvís að því 2015 að koma fyrir hugbúnaði í tölvukerfi dísilknúna bílgerða sinna. Búnaðurinn átti að fegra stórlega niðurstöður mengunarmælinga bílanna. Málið hefur síðan dregið dilk á eftir sér og hefur Volkswagen þurft að greiða himinháar sektir víða, þar á meðal í Bandaríkjunum
Greenpeace samtökin voru stofnuð í Kanada 1971. Samtökin reka 26 svæðisskrifstofur með starfsemi í 55 löndum. Höfuðstöðvar þeirra eru í Amsterdam í Hollandi. Helstu baráttumál samtakanna eru loftslagsbreytingar.