Volkswagen bjallan á merkisafmæli í dag

The image “http://www.fib.is/myndir/VW30-1937.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
VW 30. Ein frumgerða Ferdinants Porsche frá 1937.
Í dag, 27. desember eru 60 ár síðan seríuframleiðsla á Volkswagen Bjöllunni gömlu góðu hófst í Wolfsburg í Þýskalandi. Upphaf þessa vinsælasta fjölskyldubíls sögunnar var að vísu ekki þennan desemberdag árið 1945 heldur nær það aftur til ársins 1934 þegar Ferdinant Porsche að beiðni Adolfs Hitlers vann að að Fólksvagni, - bíl fyrir þýskan almenning og kynnti frumgerðir bílsins fyrir foringjanum og helstu samstarfsmönnum hans. Þýkum almenningi bauðst í framhaldinu að fá greidd laun sín í einskonar bónusmiðum og þegar nógu margir voru í hendi átti að vera hægt að fara og fá fyrir þá nýjan Fólksvagn. Það gekk aldrei eftir því að heimsstytjöld brast á og meira þótti við liggja að framleiða hergögn en bíla fyrir almenning sem fékk að gefa bónusmiðana sína til vopnaframleiðslunnar og fékk engan bílinn í staðinn og einungis 630 fólksvagnar voru byggðir fram til stríðsloka.
Það urðu Bretar sem hertóku verksmiðjuna í Wolfsburg í ágúst 1945 og hershöfðingi þeirra lét byggja 200 Fólksvagna fyrir sig og sína menn í skyndingu. Þeim líkaði svona sfskaplega vel við Fólksvagnana sína og svo fór að breska herstjórnin samþykkti að setja framleiðsluna af stað og byggja 20 þúsund bíla. 500 voru byggðir sem sendiferðabílar með kerru aftaní fyrir póstþjónustuna en 19.500 sem fólksbílar með sætum fyrir fjóra til fimm.
Framleiðslan hófst og fyrsti Fólksvagninn rann af færibandinu morguninn 27. desember 1945 og 55 aðrir fylgdu í kjölfar hans. 6033 starfsmenn höfðu verið ráðnir til verksmiðjunnar sem var að miklu leyti rústir einar eftir sprengjuhríð bandamanna og skortur var á hráefni og vega- og flutningakerfi að meira og minna leyti í rúst. Þetta var því gríðarlega erfið byrjun og þurftu allir sem að málum komu að leggja hart að sér og sýna af sér ótrúlega hugkvæmni og mikið frumkvæði og það gerðu þeir sannarlega því að ári síðar höfðu 10.020 bílar verið byggðir. Volkswagen-ævintýrið var hafið.
Fyrstu tveir veturnir voru starfsfólkinu í Wolfsburg mjög erfiðir. Kuldar voru miklir og í ársbyrjun 1947 bókstaflega fraus framleiðslan í þrjá mánuði vegna kuldanna. En vinsældir bílsins jukust jafnt og þétt og í ágúst 1947 voru fimm Bjöllur sendar til Hollands. Þetta var fyrsti útflutningurinn og orðspor Bjöllunnar óx og hún varð eitt helsta tákn þýska efnahagsundursins og tákn friðar og vaxandi velmegunar í Evrópu eftir stríðið. Og þann 5. ágúst 1955 rann milljónasta Bjallan af færibandinu í Wolfsburg.
Gamla Bjallan var alla tíð með loftkældum fjögurra strokka mótor aftur í skottinu. Vélin var fyrst rétt undir þúsund rúmsentimetrum að sprengirými en var fljótlega stækkuð í 1192 rúmsm og aflið þar með aukið úr 24 hö í 30. Hámarkshraðinn varð við þessa breytingu í kring um 112 km/klst. Síðar var vélin stækkuð í 1300 rúmsm og fáanlegar urðu 1500 og 1600 rúmsm vélar.
Gamla Bjallan breyttist lítið í útliti frá upphafi og þar til framleiðslunni í Volfsburg var hætt árið 1974. Innviðirnir voru sömuleiðis alla tíð þeir sömu í grundvallaratriðum. Fjöðrunin var stálfjöður inni í röri og þegar hjólin fjöðruðu gerðist það með því að það snerist upp á stálfjöðrina inni í rörinu. Burðarvirkið í bílnum var langt og svert stálrör eftir endilöngum bílnum. Aftan á það var skrúfaður gírkassi, mótor og hjólabúnaður og að framan gekk tveggja arma gaffall fram úr enda rörsins mikla og á hann var hjóla- og stýrisbúnaðurinn skrúfaður. Ofan á þetta var svo yfirbyggingin skrúfuð. Allt var þetta einfalt en traust og aksturseiginleikarnir voru betri an marga kann að gruna að óreyndu.
Eftir að framleiðslunni lauk í Wolfsburg var Bjallan áfram byggð í Brasilíu og Mexíkó uns hún lagðist af 30 júlí 2003. Þá höfðu samtals verið byggðar 21 miljón 529 þúsund 280 bjöllur.
The image “http://www.fib.is/myndir/VWmilljon.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.The image “http://www.fib.is/myndir/VWefnahagsundur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Milljónasta Bjallan 1955 og tákn þýska efnahagsundursins - loksins fjölskyldubíll!
The image “http://www.fib.is/myndir/VW-sidasti.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Síðasta Bjallan, nr. 21.529.280. Byggð í Mexíkó 30. júlí 2003.