Volkswagen kaupir Borgward

Volkswagen hefur keypt hið gamla og fornfræga bílamerki Borgward og undirmerkin Goliath og Lloyd. Borgward var nokkuð þekkt bíltegund hér á landi upp úr 1950 og fram tll ca. 1965 og var stundum ruglað saman við Wartburg en milli Borgward og Wartburg var enginn skyldleiki. Wartburg (og Trabant) var austurþýskur en Borgward hafði heimilisfesti sína í gömlu Hansaborginni Bremen í V. Þýskalandi.

http://www.fib.is/myndir/Borgward-isabella.jpg
Borgward Isabella.
http://www.fib.is/myndir/Goliath-Dreirad_Pritsche.jpg
http://www.fib.is/myndir/VW-Isabella.jpg
http://www.fib.is/myndir/Lloyd-LP-300.jpg
Græni bíllinn er Lloyd LP 300. Þriggja
hjóla vörubíllinn er Goliath og blái bíllinn
þar undir er hugmynd VW að ódýrum
Golíat-iðnaðarmannabíl.

Þýska bílatímaritið AutoBild segir að hugsunin með þessum kaupum sé sú að endurvekja þessi vörumerki á bíla í ódýrari kantinum, ekki ósvipað og Renault gerði með Dacia. Það væri vissulega við hæfi, í það minnsta hvað varðar Lloyd, en Lloyd og hinir þriggja hjóla Goliath bílar voru talsvert algengir í Evrópu framyfir miðja öldina síðustu, þótt aldrei næðu þeir útbreiðslu á Íslandi.

Sá Borgward bíll sem einna vinsælastur varð hafði gerðarheitið Isabella. Hann var gullfallegur og sígildur í útliti og breyttist lítið þann tíma sem framleiðslan stóð sem var frá 1954 til 1962 þegar Carl F. W. Borgward, eins og fyrirtækið hét, lagði upp laupana.  Lloyd LP 300 var smábíll ekki ósvipaður Trabantinum a. þýska og yfirbyggingin úr plasti eins og á Trabantinum. Hann var ódýr og ekki var heldur aflinu fyrir að fara því að vélin var einungis 10 hö. Í raun var hann því eiginlega hálfgert fjórhjól með húsi. Þriggja hjóla Goliath bílarnir voru fyrst og fremst ætlaðir sem vinnubílar fyrir iðnaðarmenn og sem sendibílar. Loks má svo nefna sendibílinn Goliath Express 1100 sem líka fékkst sem pallbíll og sem 9 manna smárúta.

Tímaritið AutoBild getur sér þess til að Volkswagen muni byrja á því að endurvekja þriggja hjóla Golíatinn eða iðnaðarmannabílinn með því að taka afturhlutann á sendibílnum Caddy og setja á hann nýjan framenda með aðeins einu hjóli. Með því móti verði mögulegt að bjóða upp á ódýrt ökutæki fyrir iðnaðarmenn, farandsala, garðyrkjubændur og alla þá sem á þurfa að halda, sem kosta myndi einungis ca 5.500 evrur. Slíkur bíl gæti komið á markað strax upp úr miðju næsta ári og þar sem Volkswagen á allt í slíkan bíl yrði hönnun og samsetning því sáraeinföld.

Aths.

Þess skal getið að eftir að AutoBild og fleiri þýskir bílafjölmiðlar birtu þessa frétt þá birtist þessi athugasemd á vef AutoBild:

April, April!
Haben Sie's gemerkt? Dieser Artikel ist unser Aprilscherz vom 1. April 2012. Wir hoffen, Sie hatten Spaß beim Lesen – und sind gespannt, wie es tatsächlich mit Borgward, Goliath und Lloyd weitergeht. Die Redaktion.

Aprílgabbið í fréttinni er því það að Volkswagen að Volkswagen ráðgeri að byggja þriggja hjóla bíla. Ekkert liggur fyrir um það. Þá vitum við ekki fyrir víst hvort Volkswagen sé í raun eigandi Borgward vörumerkjanna. Annað í fréttinni er hins vegar sannleikanum samkvæmt.