Volkswagen Passat fertugur

40 ár eru liðin síðan Volkswagen Passat kom fyrst fram. Passat hefur frá upphafi árið 1973 verið framleiddur sem bæði hlaðbakur og stallbakur (með skotti) og sem langbakur eða Variant, eins og það heitir hjá Volkswagen. Langbakurinn hefur lengstum verið vinsælasta útgáfan á felstum markaðssvæðum.

Sterkasta markaðssvæðið fyrir Passat hefur lengstum verið heimamarkaðurinn Þýskaland og það næst sterkasta hefur lengi verið Svíþjóð. Frá árinu 1973 hafa um 277 þúsund Passatbílar verið skráðir í Svíþjóð, lang flestir langbakar eða Variant-gerðin.

Sú kynslóð VW Passat sem nú er framleidd er sú sjöunda í röðinni. Kaupendur nýrra Passatbíla eiga þess nú kost að velja milli mjög fjölbreytts búnaðar og innréttinga, sídrifs á öllum hjólum eða framhjóladrifs og milli mikils fjölda bæði bensín- og dísilvéla og gírkassa. Allt var þetta einfaldara í sniðum árið 1973 því þá voru einungis þrjá gerðir bensínvéla í boði; 60, 75 eða 85 hestafla.

Volkswagen Passat selst víðar en í Evrópu því hann fyrirfinnst í nánast öllum heimshornum og undir ýmsum nöfnum eins og Quantum, Magotan, Corsar, Carat, Dasher og Santana.

http://www.fib.is/myndir/Passatar.jpg