Volkswagen reisir bílaverksmiðju í Indlandi
01.12.2006
Á sama tíma og til stendur hjá VW að loka bílaverksmiðjum í Evrópu eru nýjar á teikniborðinu í bæði A-Evrópu og Asíu. Nýlega var gengið formlega frá samningum um nýja VW verksmiðju í héraðinu Maharashtra í Indlandi þar sem byggðir verða Volkswagen og Audi bílar. Afkastageta verksmiðjunnar verður 110 þúsund bílar á ári. Hún tekur til starfa 2009 og fjárfestingin í henni er upp á hátt í 40 milljarða ísl. kr. Um 2500 manns munu starfa í verksmiðjunni.
VW á fyrir aðra verksmiðju í Indlandi. Í henni eru nú settir saman Skoda bílar og um mitt næsta ár hefst þar einnig framleiðsla á Volkswagen bílum.
Hans Dieter Pötsch forstjóri Skoda segir að bílamarkaðurinn í Indlandi sé einn sá áhugaverðasti í heiminum um þessar mundir og þar ætli VW grúppan með Skoda, Audi og Volkswagen að treysta sig enn frekar í sessi á næstu árum. Það verði m.a. gert með því að þróa nýjar gerðir bíla sem sérstaklega eru ætlaðar Indlandsmarkaði og þörfum hans, án þess þó að fyrir borð verði borin gæði og áreiðanleiki bílana.