Volkswagen T2 frá Brasilíu

Önnur kynslóð gamla hippabílsins ; rúgbrauðsins frá Volkswagen er nú aftur fáanlegur nýr í Evrópu – sem húsbíll. VW T2 eða Bulli eins og Þjóðverjar nefndu hann, er ennþá byggður í Brasilíu.  Hollenskt fyrirtæki kaupir T2 þaðan, flytur til Bretlands þar sem bílarnir eru forskráðir og síðan innréttaðir sem húsbílar. Að því loknu eru þeir fluttir til Hollands og seldir kaupendum þar og annarsstaðar í Evrópu.

http://www.fib.is/myndir/VW-T2-kombi.jpg

Fyrsta kynslóð VW rúgbrauðsins, T1 var í grunninn gamla Bjallan með annarri yfirbyggingu. T2 var hins vegar talsvert annarskonar bíll. Skrokkurinn var nú orðinn sjálfberandi en ekki lengur yfirbygging sem skrúfuð var ofan á gamla burðarrörið eftir endilöngum bjöllubotninum og greinar þess. Þá var fjöðrunarkerfið verulega endurbætt þannig að aksturseiginleikar og burðarþol varð allt annað en hjá T1.

Fyrstu þrjár kynslóðir VW rúgbrauðanna voru með loftkældum VW vélum aftur í. Í T1 voru sömu vélar og í Bjöllunni eða 900-1200 rúmsm. T2 var lengst af með 1600 rúmsm vél og var verulega aflmeiri en T1 bílarnir voru nokkru sinni. Seint verður þó sagt að T2 hafi verið eitthvert tryllitæki. Viðbragðið úr núlli í hundraðið var í kring um 16 sekúndur og á vegum úti hélt T2 ágætlega 80-100 km hraða.

Í hinum nýja VW T2 frá Brasilíu  er loftkælda 1600 rúmsm vélin horfin en í hennar stað komin 1,4 l 80 ha. vél með beinni eldsneytisinnsprautun. Nýja vélin er vatnskæld og tvö rör flytja kælivatnið milli vélarinnar afturí og vatnskassans fremst á bílnum.

Þessi Braslíurúgbrauð uppfylla ekki núgildandi evrópustaðla sem bílar þurfa að uppfylla til að fást gerðarviðurkenndir. Í Bretlandi gilda hins vegar sérstakar reglur um eins bíls skráningar bíla. Til að koma þeim á Evrópumarkað eru því bílarnir fluttir fyrst til Bretlands frá Brasilíu. Þar er hver og einn bílanna skoðaður af opinberum skoðunaraðila og viðurkenndur sem nothæfur og síðan forskráður í Bretlandi. Eftir að Bretland hefur þannig heimilað notkun hans, er hægt að skrá bílinn inn í önnur Evrópulönd sem notað farartæki. Þetta er eina leiðin segir framkvæmdastjóri hollenska húsbílafyrirtækisins við Auto, Motor & Sport.

Fyrrnefndur mótor í bílnum er sem áður segir 1,4 lítra að rúmtaki og 80 hö. Hann skilar bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 16 sekúndum og hámarkshraðinn er 135 km á klst.  Fyrir utan mótorinn er flest í bílnum hið sama og var í gamla daga. Mælaborðið er þó lítilsháttar uppfært en flest annað óbreytt. En eftir að búið er að breyta honum í húsbíl er hann með lyftanlegum toppi, eldavél, kæliskáp og gashitara og annarri innréttingu fyrir húsbíla. Verð á bílnum þannig búnum er  í kring um 7,5 millj. kr.