Volt bílaverksmiðjan stöðvuð í mánuð
General Motors Co hefur tilkynnt að verksmiðja sú í bílaborginni Detroit sem framleiðir rafbílinn Chevrolet Volt verði stöðvuð í mánuð. Engin framleiðsla verður á Volt frá miðjum septembermánuði til miðs októbermánaðar. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem verksmiðjan er stöðvuð.
Talsmaður GM segir að þetta sé gert til að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar fyrir bæði Volt og Chevrolet Malibu sem einnig er framleiddur í þessari tilteknu verksmiðju. Meðan starfsemin liggur niðri verður hléið notað til að yfirfara framleiðslulínur og skipta um búnað og undirbúa framleiðslu nýs bíls - 2014 árgerðarinnar af stallbaknum Chevrolet Impala. Frumgerðir og tilraunaeintök þess bíls verða byggð í Volt-verksmiðjunni. Sú starfsemi hefst fljótlega upp úr næstu áramótum „Gamla“ 2013 árgerðin hefur verið framleidd í verksmiðju GM í Ontario í Kanada og verður áfram framleidd þar fram eftir næsta ári, eða allt þar til árgerðaskiptin hefjast haustið 2014 og nýja árgerðin leysir þá eldri af hólmi.
Miðað við þann umtalsverða áhuga almennings og fjölmiðla fyrir Chevrolet Volt skömmu áður en almenn sala á honum hófst, þá eru það vonbrigði fyrir GM hversu langt undir áætlunum salan hefur verið. En GM menn bera sig vel og fjölmiðlafulltrúi samsteypunnar segir við Reuters að nú gangi salan stórvel (-The Volt is doing great, segir hann). Vissulega hefur hún vaxið verulega á þessu ári eða um 272 prósent miðað við sama tíma í fyrra. En þrátt fyrir þennan vöxt er salan langt undir áætlunum GM eins og þær litu út þegar þegar salan hófst undir lok ársins 2010.