Volvo ekki til sölu!

 http://www.fib.is/myndir/Volvo-logo.jpg

Mjög sterkur og þrálátur orðrómur hefur lengi verið á kreiki um að Ford sé að selja Volvo í Svíþjóð. Nú síðast birtist frétt í Financial Times fyrir rúmri viku um að Ford-stjórar hefðu átt í viðræðum við BMW um kaup á Volvo. Í frétt sem John Gardiner upplýsingafulltrúi Ford sendi frá sér sl. þriðjudag er þessu neitað og fullyrt að engar viðræður hefðu átt sér stað við BMW né nokkurn annan bílaframleiðanda um kaup á Volvo.

Sérfræðingar í málefnum bílaiðnaðarins sem erlendar fréttastofur hafa rætt við segja að ljóst sé að Ford hafi ekki áhuga á að losa sig við Volvo. Spurningin sé hins vegar sú hvort Ford muni fyrr eða síðar neyðast til þess. Á næstu þremur árum standi fyrir dyrum mjög dýr endurskipulagning á Ford auk þróunarvinnu við nýjar bílagerðir í því skyni að endurheimta tapaða hlutdeild á heimamarkaðinum, Bandaríkjunum. Að vísu sé búið að taka mjög stór lán í þessu skyni en ástandið sé svo slæmt að óvíst sé að þeir fjármunir dugi.

Einn þessara viðmælenda orðar það þannig að Volvo sé eiginlega eina greinin á Ford-trénu sem ber góðan ávöxt. Áhöld séu hins vegar um hvort sjálfur stofninn sé svo feyskinn að hann eigi eftir að falla undan þyngd sinni og draga Volvo með sér í því falli.