Volvo fornbílarall við heimskautsbauginn

http://www.fib.is/myndir/Amazonmeeting330.jpg
Helgina 17.-19. febrúar verður heilmikið vetrarrall og þing eigenda gamalla Volvo bíla við heimskautsbauginn. Mótið verður í Luleå í Norður-Svíþjóð en þar er nú mikið vetrarríki, snjóalög og miklir kuldar. Það er haldið af alþjóðlegum samtökum Volvo-fornbílaeigenda og nefnist VOMAC . (Volvo Owners Meeting at the Arctic Circle).

Þátttakendur verða m.a. frá Austurríki, Belgíu, Hollandi, Þýskalandi og Svíþjóð og sá bíll sem lengsta leið á til mótsins er Volvo 240 frá Austurríki. Bílarnir sem þátt taka í sjálfri rallkeppninni eru af ýmsum gerðum og frá ýmsum tímabilum í sögu Volvo en engin aldurs- eða önnur skilyrði eru sett fyrir þátttöku. Þegar hafa verið skráðir til keppni bílar af gerðunum PV, Duett, Amazon, P1800, 140, 200, 300, 400, 700, 800, 900, S, V, og XC.
VOMAC er fyrir alla Volvobíla en nokkuð er óvenjulegt að halda mót af þessu tagi um hávetur. Skipuleggjendur viðburðarins segja á heimasíðu sinni að þeim sem búa sunnar í álfunni þyki einmitt það vera spennandi og sérstakt að komast í mikinn snjó og heimskautskulda og aka bílum sínum við þær aðstæður. Þeir sem ekki eiga Volvobíl eða geta ekki komist á honum þarna norðureftir, geta þá bara tekið flug til Luleå og leigt þar viðeigandi bíl. Allt þetta má lesa um á heimasíðu VOMAC. http://www.vomac.org