Volvo framleiðsla hefst í Kína

http://www.fib.is/myndir/VolvoS40.jpg

Senn hefst framleiðsla á Volvo S40 í einni af verksmiðjum Ford í Kína. Bílamarkaðurinn í Kína vex mjög hratt um þessar mundir en þar sem bílainnflutningur er nánast bannaður verður að framleiða þá bíla sem ætlunin er að selja í Kína í landinu sjálfu. Þess vegna er Ford bílaverksmiðjan í Changan sá stökkpallur sem Volvo þarfnaðist til að ná fótfestu á þessum ört vaxandi bílamarkaði. Um það bil 10 þúsund S40 bílar verða framleiddir álega.

Fredrik Arp framkvæmdastjóri fólksbílaframleiðsludeildar Volvo segir þetta vera mjög mikilvægt fyrir Volvo og muni treysta Volvo mjög í sessi í Kína. Á blaðamannafundi í Bejing í gær sagðist hann vera sannfærður um að S40 myndi slá í gegn í Kína.

Volvo hefði rannsakað rækilega kínverska bílamarkaðinn og bílaiðnaðinn í heild og komið sér upp sölu- og dreifikerfi. Ætlunin væri að láta kínverska undirframleiðendur smíða sem mest af einstökum hlutum bílsins og myndi það ekki koma niður á gæðum bílsins. Kínverskur Volvo S40 ætti ekki að verða síðri bíll en sænskur S40.