Volvo fyrir 50 árum

http://www.fib.is/myndir/Volvo544litil.jpg
Volvo PV544.

Þegar Volvo Amazon kom fram á sjónarsviðið síðla sumars árið 1956 bjuggust flestir við því að nú væru dagar gömlu „kryppunnar“ eins og Volvo PV 444 var kallaður, taldir. En það merkilega gerðist að eftirspurn eftir kryppunni minnkaði eiginlega ekki neitt, hvorki í heimalandinu Svíþjóð og Evrópu yfirleitt, né heldur í Bandaríkjunum. Því var það ráð tekið að fríska rækilega upp á kryppuna og var nýja útgáfan, sem nefndist 544, kynnt 25. ágúst 1958. Framleiðslunni var svo hætt 1965 þegar Volvo 144 kom fram.

Framleiðsla á eldri 444 gerðinni hófst árið 1947. Megingerðirnar voru tvær; tveggja dyrahttp://www.fib.is/myndir/Volvo544.jpg fólksbíll og langbakur. Þau 18 ár sem framleiðsla á 444/544 stóð voru byggðir tæplega 500 þúsund bílar. Alls urðu til á tímabilinu átta gerði af PV 444 og sjö af 544.

Ýmsar veigamiklar breytingar urðu á bílunum í ágúst 1958. Það sem helst sást á ytra útlitinu var að í stað tvískiptrar framrúðu kom nú heil framrúða. Þá komu einnig fram öflugri vélar og aðalvélin varð hin óhemju endingargóða og öfluga B-18 vél í stað 1,5 lítra vélarinnar í 444. Seinna komu svo fjögurra gíra alsamhæfður gírkassi í stað þriggja gíra kassans í 444. En 544 gerðin var einnig rúmbetri en gamli 444 bíllinn. Hann var hugsaður fyrir fimm manns eins og talan fimm í gerðarheitinu reyndar gefur til kynna meðan sá gamli rúmaði einungis tvo farþega í aftursætinu.

Volvo PV 544 fékk mikla og sumpart óvænta auglýsingu í Bandaríkjunum árið 1959. Þá var sænski hnefaleikarinn Ingemar Johansson að undirbúa sig fyrir keppni um heimsmeistaratitilinn í þungavikt. Hann var gjarnan myndaður í bandarískum blöðum og tímaritum við sinn hvíta Volvo PV 544 og þjálfarinn hans átti samskonar bíl svartan. Þegar Ingemar var úti að hlaupa á morgnana ók þjálfarinn alltaf í humátt á eftir honum á sínum svarta PV 544. Eftirspurn eftir PV 544 stjórjókst svo í USA eftir að Ingemar Johannsson sigraði andstæðing sinn með frægu rothöggi og varð heimsmeistari.