Volvo greiðir „skilagjald“ þegar keyptur er nýr bíll

http://www.fib.is/myndir/Flexifuel.jpg

Þegar Svíi kaupir sér nýjan Volvo Flexifuel-bíl (bíl sem getur gengið á 85 prósenta etanóleldsneyti, þá greiðir Volvo manneskjunni rúmar 100 þúsund krónur ef gamla bílnum er eytt. Ef keyptur er dísil-Volvó þá greiðir Volvo rúmar 60 þúsund ísl. krónur sé gamla bílnum eytt. Þetta sérstaka skilagjald Volvo er til viðbótar við hið opinbera skilagjald í Svíþjóð sem er rúmar 100 þúsund krónur.

Með þessu sérstaka skilagjaldi sínu vill Volvo stuðla að betra umhverfisástandi og meira öryggi á vegum úti. Volvo-skilagjaldið er óháð aldri, tegund og gerð gamla bílsins. Eina skilyrðið er að hann sé afskráður hjá löggiltri bílaendurvinnslu. http://www.fib.is/myndir/Flexifuelsystem.jpg

Sá sem kaupir sér nýjan Volvo Flexifuel getur þannig reknað með því að fá samtals jafngildi rúmlega 200 þúsund íslenskra króna í hendurnar við kaupin sem gengur þá upp í verð nýja Flexifuel-bílsins. Til viðbótar eru ýmis „græn“ tilboð í gangi hjá Volvo að því er segir í frétt frá Volvo í Gautaborg og í þeim er möguleiki á því að krækja sér í enn einn hundraðþúsundkallinn til viðbótar.

Sala á umhverfismildum bílum í Svíþjóð hefur stöðugt aukist á nýliðnu ári, en þrátt fyrir það er meðalaldur bíla í Svíþjóð einn sá hæsti í Evrópu að því er segir í frétt Auto Motor & Sport í Svíþjóð.