Volvo herðir á þróun rafbíla
Samvinna Volvo og Siemens hefur nú fætt af sér fyrsta Volvo rafbílinn af mörgum fyrirhuguðum. Bíllinn er af gerðinni Volvo C30. Hann nær 70 km hraða úr kyrrstöðu á 5,9 sekúndum og með honum fylgir hraðhleðslutæki sem fullhleður tóma rafgeyma bílsins á einungis 90 mínútum. Notagildi bílsins fyrir notendur hans er þannig verulega endurbætt frá því sem tíðkast hefur um rafbíla til þessa.
Á sumri komanda verða 100 frumgerðir þessara bíla leigðir út til valins hóps ökumanna sem munu hafa bílana til daglegra nota og halda akstursbækur og fylgjast náið með hvernig bílarnir duga og sömuleiðis hvernig ýmis tæknibúnaður stendur sig. Upplýsingarnar verða nýttar til að þróa bílinn og búnað hans áfram, m.a. með hliðsjón af því að nýta hann í aðrar gerðir Volvobíla. Rafmótor bílsins og annar rafbúnaður er frá Siemens. Mótorinn er 89 kW eða 120 hö. og tog hans er 250 Nm.
„Með nýja hraðhleðslubúnaðinum í bílnum stóreykst notagildi bílsins og hann verður langdrægari en rafbílar hafa verið til þessa. Hvorttveggja lækkar þetta á vissan hátt heildarkostnaðinn við kaup og notkun bílsins, vegna þess að kaupendur fá fleiri kílómetra fyrir lægra verð. Tíu mínútna hraðhleðsla skilar t.d. raforku inn á geymana sem duga til 20 km viðbótaraksturs,“ segir Lennart Stegland framkvæmdastjóri rafbíladeildar Volvo í frétt frá Volvo í Gautaborg.
Siemens er framleiðandi mest alls þess rafbúnaðar í þá bílalínu Volvo sem byggð er á grunnplötu sem nefnist SPA (Scalable Product Architecture). Einingarnar í þessa grunnplötu og hönnun þeirra gera mögulegt að hafa grunnplöturnar misstórar. Þær gera sömuleiðis mögulegt að byggja inn í plöturnar hvers konar háþróaðan rafbúnað fyrir alls kyns driflínur, hvort heldur er um að ræða hreina rafbíla, tvíorkubíla og það án þess að skerða hið minnsta fólks- og farangursrými bílanna.
Nýja hraðhleðslutækið er 22 kW og hið fyrsta í heiminum sem er þriggja fasa og svo fyrirferðarlítið að hægt sé að koma því fyrir um borð í rafbíl. Það fullhleður rafgeymana á einum og hálfum tíma og drægi bílsins á fullhlöðnum geymum er 164 km samkvæmt staðlaðri Evrópumælingu (NEDC). Til að hraðhleðslan virki að fullu þarf að stinga í samband við þriggja fasa tengil. Sé bílnum hins vegar stungið í samband við venjulega 230 volta heimilisinnstungu er hleðslutíminn hins vegar 8-10 klst.
„Við erum stolt af því að hafa þróað þessa lausn. Vegna hennar er bíllinn tiltækur til notkunar mun fleiri klst. á hverjum degi en áður hefur þekkst um rafbíla. Með þessu höfum við tekið stórt skref í þá átt að gera rafbíla söluvænlegri, bæði fyrir heimilin og atvinnulífið,“ segir Lennart Stegland.
Hann segir að Volvo C30 rafbílarnir séu nákvæmlega jafn öruggir og góðir að öllu leyti og aðrir Volvobílar. Aksturseiginleikar þeirra séu einnig jafn góðir og loftið inni í þeim jafn hlýtt og gott óháð útihitastigi og veðurlagi. Þá sé eldsneytiskostnaður þeirra miklu lægri, eða einungis allt að 1/3 eldsneytiskostnaðar hefðbundinna bíla. Sá sparnaður ræðst að nokkru af bensín- og olíuverði á hverjum tíma.
Samvinna Volvo og Siemens hófst í ágúst 2011. Markmið hennar var frá upphafi að vera sameinað forystuafl í þróun rafbíla og rafmagns- og tæknibúnaðar fyrir þá. Lennart Stegland segir að þessi 100 bíla floti frumgerða C30 rafbíla muni skila miklum upplýsingum og þekkingu sem nýtast muni þegar raunveruleg fjöldaframleiðsla bílanna fer af stað.