Volvo innkallar 251.300 bíla

 The image “http://www.fib.is/myndir/Volvo-XC90.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Volvo XC 90

Volvo hefur sent frá sér tilkynningu þar sem eigendur nýlegra Volvo bíla af gerðunum XC90, S40 og V50 eru beðnir að fara þegar í stað með bílana á Volvo-verkstæði til viðgerða þeim að kostnaðarlausu. Ástæða innköllunarinnar varðandi fjórhjóladrifsbílinn XC90 er galli í stýrisbúnaði. Í S40 og V50 er innkallað vegna bensínleiðslu sem getur ofhitnað í bílum með fimm strokka bensínvélum með turbínu. Bensínleiðslan getur ofhitnað þegar túrbínan eða forþjappan við vélina er í fullri vinnslu. Um er að ræða samtals um 251.300 bíla um allan heim.

Christer Gustafsson blaðafulltrúi Volvo í Gautaborg í Svíþjóð segir við dagblaðið Dagens Industri að þessi innköllun verði fyrirtækinu talsvert dýr en vill ekki nefna upphæðir.  Inköllunin sé fyrst og fremst í öryggisskyni og gerð þótt engin dæmi séu um að slys hafi orðið vegna umræddra galla.

Hvað varðar XC 90 er innköllunin vegna galla í ytri stýrisliðum (stýrisendum) í árgerðum 2003, 2004, 2005 og árgerð 2006 að hluta. Samtals nær innköllunin til 217.000 XC 90 bíla og þar af eru tæplega 8.000 í Svíþjóð. Upplýsingafulltrúinn segir að ef mikið álag verður á stýrisbúnaðinn gætu kúluarmar í stýrisliðunum átt það til að aflagast. Það geti leitt til þess að slag eða hlaup komi í stýrið sem við það verður ónákvæmt.

34.300 bílar af gerðunum S 40 og V 50 eru innkallaðir vegna þess að bensínslanga getur hugsanlega ofhitnað og skemmst af völdum hita frá vélartúrbínunni og tekið að leka. Við það gætu komið gangtruflanir í fyrstu en svo í versta falli kviknað í bílunum. Blaðafulltrúinn segir að engin vandamál séu þekkt í sambandi við þetta en engu að síður vilji þeir Volvo-menn útiloka að vandamál geti komið upp í bílum frá þeim. Hvað varðar gerðirnar S40 og V50 þá nær innköllunin til bíla af árgerðum 2004, 2005 og 2006.