Volvo kynnir frumgerðir nýrrar 40-línu
Volvo kynnti í gær í höfuðstövum sínum í Gautaborg frumgerðir tveggja nýrra bíla. Báðir verða þeir af svonefndri 40-línu Volvo og hvað stærðina varðar eru þeir af minni meðalstærð svonefndra Premium-bíla. Grunnplata þeirra er alveg ný og nefnist CMA (Compact Modular Architecture) og eru einingarnar sérhannaðar til nota í undirvagna ívið minni bíla en Volvo hefur um langt skeið lagt mesta áherslu á.
Áætlað er að framleiðsla á nýju 40 línunni hefjist árið 2017 og hvað útlit varðar ber að skoða sýningarbílana í Gautaborg í gær sem vísbendingu um útlit framleiðslubílanna. En bílarir í gær voru af tvennu tagi: Annars vegar var það litli hábyggði jepplingurinn XC40 og hins vegar V40 sem er það sem stundum kallast blendingur jepplings og fólksbíls eða Crossover.
Volvoforstjórinn Håkan Samuelsson sagðist á kynningunni í gær vonast til að nýju bílarnir væntanlegu í 40 línunni myndu bæta stöðu Volvo á markaði fyrir minni gæðabíla en eftir slíkum farartækjum væri mikil og vaxandi eftirspurn. Bílarnir yrðu auk þess ýmist hreinir rafbílar eða tengiltvinnbílar enda væri nýi undirvagninn sérstaklega hannaður með það fyrir augum.